5. apríl 2022

Útflutningstekjur á uppleið og breytt heimsmynd

Ljósmynd

Sigríður Mogensen, Pétur Þ. Óskarsson, Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, Lenny Stern og Hildur Árnadóttir

Ársfundur Íslandsstofu fór fram í Grósku föstudaginn 1. apríl að viðstöddum um 100 gestum, en fleiri fylgdust með beinu streymi á vefnum.

rich text image

Utanríkisráðherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ávarpaði fundinn. Í framsögu sinni sagði hún meðal annars að Íslandsstofa gegndi ákaflega mikilvægu hlutverki við að styðja við sköpunarkraftinn í íslensku atvinnu- og menningarlífi. Listir og skapandi greinar eigi stóran þátt í að skapa ímynd og viðhorf til lands og þjóðar. „Nýtt samkomulag stjórnvalda og Íslandsstofu um markaðsverkefnið Skapandi Ísland, markar þáttaskil í kynningu á íslenskri menningu erlendis. Verkefninu verða lagðar til 90 milljón krónur árlega til ársins 2025 og er því hægt að ráðast í umfangsmeiri kynningar en áður og gera áætlanir til lengri tíma.“ Þá sagði Þórdís Kolbrún að þróun og mótun íslensks atvinnulífs til framtíðar muni byggjast á nýsköpun. Í vinnu við nýsköpunarstefnu Íslands sem kynnt var á síðasta kjörtímabili hafi verið lögð sérstök áhersla á mikilvægi þess að nýsköpunarhugsun á Íslandi þurfi ætíð að vera alþjóðleg í eðli sínu. „Þess vegna skiptir miklu máli að íslenska utanríkisþjónustan og Íslandsstofa stefni ætíð að því að stækka leikvöllinn fyrir íslensk fyrirtæki og íslenska menningu,“ sagði hún. 

rich text image

Formaður stjórnar Íslandsstofu, Hildur Árnadóttir flutti opnunarávarp þar sem hún ræddi útflutningstekjur árið 2021 og hafði á orði að: „segja mætti að vatnaskil hefðu orðið á síðasta ári eftir mikil fall útflutningstekna árið áður en árið 2021 jóst útflutningur um rúmlega 20% frá árinu 2020 og nam ríflega 1230 milljörðum króna.“ Sagði hún afar ánægjulegt að sjá að aukning útflutningstekna af hugverkaiðnaði heldur áfram, en áætlað er að tekjur í þeim geira séu að nálgast 200 milljarða króna: „hér er orðin ný stoð í gjaldeyristekjum sem gera má ráð fyrir að muni halda áfram að vaxa á næstu árum og áratugum.“

rich text image

Pétur Þ. Óskarsson, framkvæmdastjóri Íslandsstofu, skautaði yfir starfsemina á árinu 2021 og áherslur í útflutningi. Pétur sagði einnig frá nokkrum nýjum verkefnum Íslandsstofu. Þar ber að nefna samstarf við Business Sweden, sem íslensk fyrirtæki geta nýtt sér við inngöngu og vöxt á erlendum mörkuðum. Verkefnið Reykjavik Science City var sett á laggirnar í nóvember með það markmið að laða hingað til lands erlenda sérfræðinga og fjárfesta á sviði tækni og vísinda. Skapandi Ísland er nýtt verkefni sem miðar að því að kynna íslenska tónlist, myndlist, bókmenntir, kvikmyndir, sviðslistir og hönnun utan landsteinanna. Verkefnið Eiderdown of Iceland er unnið í samstarfi við æðaræktendur þar sem markmiðið er að ná aukinni vitund erlendis um þessa lúxusafurð sem við eigum. Markaðsverkefnið Future Food er enn í mótun og tengist tækifærum í matvælaframleiðslu framtíðar þar sem græn orka og hreint vatn eru í aðalhlutverki.
Að lokum er vert að nefna að samkomulag um framhald Ísland saman í sókn, markaðsverkefnis fyrir íslenska ferðaþjónustu, var nýverið undirritað og viðbótarfjármagn lagt til. Þá hefur samningur um verkefnið Horses of Iceland verið endurnýjaður til næstu þriggja ára.

rich text image

Gestafyrirlesari fundarins var Lenny Stern hjá auglýsingastofunni M&C Saatchi sem sér um markaðsherferðir Ísland - Saman í sókn og vakið hafa verðskuldaða athygli. Erindi Lenny sem bar heitið „What the F—k just happened and what does that mean for how we do what we do!“ fjallaði um hvaða áhrif heimsfaraldur hefur haft á hugarfar fólks. Að hans sögn er heimsmyndin nú breytt, og hegðun og viðhorf fólks nú önnur en fyrir Covid. Ýmislegt hefur nú verið endurmetið, fyrirtæki hafa þurft að bregðast við og jafnvel endurhugsa öll sín gildi og starfsemi. Þetta hefur einnig haft áhrif á ferðahegðun fólks til frambúðar. Fólk vill ekki bara ferðast eins og áður. Kröfurnar hafa breyst og það sækir í upplifun þar sem það getur endurnærst andlega og líkamlega. Það sækir í ‚bucket list‘ ferðalög – en ekki bara einu sinni, heldur alltaf, segir Lenny.
Erindi Lenny má sjá í heild sinni hér að neðan.

rich text image

Fundarstjóri á fundinum var Sigríður Mogensen, sviðsstjóri iðnaðar- og hugverkasviðs Samtaka iðnaðarins.

rich text image

Við þökkum gestum okkar kærlega fyrir komuna.

Hér að neðan má sjá upptöku frá fundinum:

Sjá allar fréttir