20. september 2024
Startup Tourism viðskiptahraðallinn endurvakinn
Hér má sjá fulltrúa frá bakhjörlum verkefnisins við undirritun samstarfssamnings um hraðalinn í Grósku þann 16. september.
Eftir fimm ára hlé hafa KLAK - Icelandic Startups og Ferðaklasinn endurvakið Startup Tourism, viðskiptahraðal fyrir frumkvöðla, í samstarfi við bakhjarla verkefnisins. Með endurkomu hraðalsins er vonast til að ný tækifæri skapist innan íslenskrar ferðaþjónustu.
Bakhjarlar verkefnisins komu saman í Grósku þann 16. september sl. og undirrituðu samstarfssamning um hraðalinn en styrktaraðilar hans eru menningar- og viðskiptaráðuneytið, Berjaya Iceland Hotels, Icelandair, N1 og Icelandia. Auk þess kemur Íslandstofa að verkefninu sem samstarfsaðili.
Hraðallinn markar tímamót í nýsköpun innan ferðaþjónustunnar. Allt að tíu teymum mun bjóðast sæti í fimm vikna hraðli sem hefst þann 28. október og lýkur með fjárfestadegi þann 27. nóvember. Opnað hefur verið fyrir umsóknir og er hægt að sækja um til 13. október. Sjá nánar
Markmið verkefnisins er að hvetja til nýsköpunar og tæknivæðingar í ferðaþjónustu, styrkja stoðir nýrra fyrirtækja, fjölga afþreyingarmöguleikum og stuðla að dreifingu ferðamanna víðs vegar um landið, allan ársins hring.