3. maí 2024

Stærsta sjávarútvegssýning heims haldin í Barcelona

Ljósmynd

Íslandsstofa hélt utan um þjóðarbás Íslands á Seafood Barcelona þar sem 28 íslensk fyrirtæki tóku þátt.

Stærsta sýning á sviði sjávarútvegs í heiminum fór fram dagana 23.- 25. apríl í Barcelona. Þetta er í þrítugasta skiptið sem sýningin er haldin og skipulagði Íslandsstofa þjóðarbás Íslands þar sem 28 fyrirtæki tóku þátt, bæði fyrirtæki með sjávarafurðir, og tæknilausnir og þjónustu við sjávarútveginn. Þá voru einnig nokkur önnur íslensk fyrirtæki með eigin bása á staðnum.
Hér má sjá kynningu á íslenskum þátttökufyrirtækjunum

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, matvælaráðherra var á meðal þeirra sem heimsóttu sýninguna. Hún kynnti sér sýningarsvæðið og hitti fulltrúa fyrirtækjanna þar sem hún upplifði á eigin skinni þann kraft og metnað sem íslensku sýnendurnir lögðu í þátttökuna. 

Í daglegu tali er sýningin kölluð Seafood Barcelona en er hún í raun tvær sýningar, Seafood Expo Global og Seafood Processing Global. Áður fyrr var sýningin haldin í Brussel en færðist yfir til Barcelona árið 2022. Ísland hefur verið með þjóðarbás á þessari sýningu frá upphafi, eða frá árinu 1993.   

Seafood Barcelona telst vera sú framsæknasta í heiminum og sýnir hún það nýjasta og besta sem sjávarútvegsfyrirtæki og aðilar sem þjónusta sjávarútveginn hafa upp á að bjóða. Áætlað er að yfir 34 þúsund gestir alls staðar að úr heiminum hafi sótt sýninguna í ár og voru sýnendur yfir 2.200 talsins frá 87 löndum.  

Hér fyrir neðan má sjá nokkrar myndir frá sýningunni.

Stærsta sjávarútvegssýning heims haldin í Barcelona

Sjá allar fréttir