10. september 2024
Snjórinn á Norðurlandi laðar að breska ferðamenn
Hér talar Þorleifur Þór Jónsson frá Íslandsstofu við gesti fundarins um áfangastaðinn Ísland.
Þann 5. september sl. stóð Íslandsstofa í samvinnu við Markaðsstofu Norðurlands fyrir kynningu í Manchester til að vekja áhuga þarlendra ferðasöluaðila á beinu flugi easyJet frá Manchester sem hefst í lok október.
Það voru ríflega 30 aðilar sem komu á fundinn sem haldinn var í The Chill Factore sem er stærsta innanhúss skíðasvæði Englands. Þorleifur Þór Jónsson frá Íslandsstofu og Halldór Óli Kjartansson frá Markaðsstofu Norðurlands sögðu frá kostum Íslands og Norðurlands. Þá fór Chris Hagan, kynningarfulltrúi Markaðsstofunnar í Bretlandi yfir ýmis praktísk mál varðandi sölu á ferðunum. Að lokum var gestum sleppt lausum á snjóþotur og dekkjaslöngur og skemmtu þau sér konunglega. Með því að tengja kynninguna beint við snjóinn verður þetta vonandi gestum minnistæðara og lætur Ísland og Norðurland vera ofarlega í huga þegar ferðir vetrarins verða seldar, að sögn Þorleifs Þórs.
Flugfélagið easyJet býður upp á ferðir til Akureyrar á áætlun tvisvar í viku frá október út mars 2025, frá Manchester og einnig frá London (Gatwick). Viðtökurnar á fluginu hafa verið góðar, bæði á Bretlandi og Íslandi.
Hér fyrir neðan má sjá nokkrar myndir frá viðburðinum.