28. apríl 2023

Norðurlöndin kynna saman grænar lausnir á heimssýningunni í Osaka 2025

Ljósmynd

Heimssýningin fer fram í Osaka í Japan, 13. apríl – 13. október 2025 og er búist er við að um 28 milljón gestir sæki sýninguna yfir það tímabil.

Ísland mun taka þátt í samnorrænum sýningarskála á heimssýningunni í Osaka í Japan árið 2025 ásamt Danmörku, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð. Áhersla verður lögð á að kynna grænar lausnir frá Norðurlöndum.

Norðurlöndin eiga sér langa sögu samvinnu. Það lá beint við að vinna þetta saman í ljósi þess að viðskiptaumhverfi þessara landa er mjög líkt og löndin hafa öll lagt áherslu á að þróa lausnir í þágu grænna umskipta,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra.

Heimssýningin fer fram í Osaka í Japan, 13. apríl – 13. október 2025. Búist er við að um 28 milljón manns heimsæki sýninguna á þeim tíma. Japan er þriðja stærsta hagkerfi heimsins og þar eru mikil viðskiptatækifæri fyrir norræn fyrirtæki. Norðurlöndin munu vinna saman að því að efla viðskiptasambönd landanna á þessum markaði og leggja sérstaka áherslu á að kynna grænar lausnir á sviði umhverfis- og loftslagsmála. Þátttaka Íslands í samvinnuverkefni Utanríkisráðuneytisins og Íslandsstofu.

Heimssýningin er góður vettvangur fyrir íslensk fyrirtæki til þess að kynna sínar vörur og þjónustu, ekki bara fyrir Japansmarkaði, heldur einnig þeim mikla fjölda gesta sem sækir sýninguna heim á meðan á henni stendur. Við munum kynna þar bæði íslenskan útflutning sem og fjárfestingatækifæri á Íslandi,“ segir Pétur Þ. Óskarsson, framkvæmdastjóri Íslandsstofu.

Sameiginleg framtíðarsýn Norðurlandanna sem samþykkt hefur verið af Norrænu ráðherranefndinni er að Norðurlöndin verði sjálfbærasta og samþættasta svæði heims árið 2030. Samstarfið í kringum Heimssýninguna í Osaka er í samræmi við þá framtíðarsýn og tækifæri til þess að kynna löndin með þeim hætti.

Heimssýningin 2025 er frábært tækifæri til þess að sýna hvað Norðurlöndin hafa lagt mikla áherslu á að móta sameiginlega framtíðarsýn og samstarf landanna á milli. Við munum leggja mikla áherslu á samstarf opinberra aðila og einkageirans í tengslum við sýninguna og Ísland fær þar stórt svið til þess að kynna þá fjölbreytta flóru grænna lausna og hugvits sem orðið hafa til hér í tengslum við langa sögu okkar af nýtingu sjálfbærra orkukosta,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra.

Hönnunarsamkeppni fyrir sameiginlegan sýningarskála


Boðað verður til hönnunarsamkeppni fyrir gerð sameiginlegs sýningarskála Norðurlandanna sem mun rísa á tæplega 1000 m2 svæði á sýningunni. Gert er ráð fyrir að skálinn innihaldi sýningu, kaffihús og munaverslun, ásamt ráðstefnu- og fundaraðstöðu. Nánari upplýsingar um útboðið er hægt að finna á evrópska útboðsvefnum.

Íslandsstofa - Útflutningsaðstoð, landkynning, fjárfestingar

Sjá allar fréttir