7. desember 2023

Norðurljós og árangursrík netagerð á Slush 2023

Boðsgestir í móttöku Íslands á Slush 2023

Íslandsstofa, Iceland Innovation Week og sendiráð Íslands í Helsinki fóru fyrir fjölmennri sendinefnd og skipulögðu tvo Íslandsviðburði í tengslum við dagskrá SLUSH 2023 í Helsinki.

Fulltrúar á sjöunda tug íslenskra fyrirtækja og fjárfesta tóku virkan þátt í sprota- og tækniviðburðinum SLUSH sem fram fór í Helsinki 30. nóvember og 1. desember. Íslandsstofa, Iceland Innovation Week og sendiráð Íslands í Helsinki fóru fyrir fjölmennri sendinefnd og skipulögðu tvo sérstaka Íslandsviðburði í tengslum við dagskrá ráðstefnunnar.

Til að brjóta ísinn í aðdraganda ráðstefnunnar buðu Harald Aspelund, sendiherra Íslands í Helsinki, og kona hans, Ásthildur Björg Jónsdóttir, til móttöku á heimili sínu þann 29. nóvember. Móttakan var vel sótt en þangað komu m.a. fulltrúar íslenskra sprota- og tæknifyrirtækja, erlendir fjárfestar og ýmsir áhugasamir aðilar um íslenska nýsköpun og tækni.

Fimmtudaginn 30. nóvember buðu svo Íslandsstofa, Iceland Innovation Week og íslenska sendiráðið til sérstaks tengslaviðburðar undir yfirskriftinni „Get to glow us!“ Markmið viðburðarins, sem fram fór í ráðstefnuhöllinni Messukeskus í Helsinki, var að tengja íslenska sprota og tæknifyrirtæki við alþjóðlega fjárfesta og aðra mögulega samstarfsaðila. Mikill fjöldi gesta mætti á viðburðinn og ljóst að þar fór fram árangursrík netagerð, en lýsing og drykkir voru innblásin af norðurljósunum sem svo oft lýsa upp hið íslenska skammdegi.

Eliza Reid, forsetafrú, tók þátt í ferð sendinefndarinnar og ávarpaði báða viðburðina.

Hér má sjá lista yfir fyrirtækin sem tóku þátt í íslensku sendinefndinni að þessu sinni en hér fyrir neðan eru nokkrar myndir frá viðburðunum tveimur.

Norðurljós og árangursrík netagerð á Slush 2023

Sjá allar fréttir