22. janúar 2021

Markaðssókn í Evrópu

Með markvissu markaðsstarfi verður unnið að því að koma íslenskum vörum á framfæri, skapa aukin verðmæti og fjölga störfum á Íslandi.

Icelandic Seafood

Í dag skrifuðu Icelandic Trademark Holding – ITH, handhafi ICELANDIC vörumerkisins og ICELAND SEAFOOD INTERNATIONAL (ISI) undir samkomulag um afnot á Icelandic Seafood vörumerkinu sem mun styðja við markaðssókn með íslenskt sjávarfang í Evrópu. Horft er til langs tíma með það að markmiði að auka virði útflutnings á gæðaafurðum frá landinu undir merkjum þess og auka vitund um virði þeirra og uppruna.

Með markvissu markaðsstarfi verður unnið að því að koma íslenskum vörum á framfæri, skapa aukin verðmæti og fjölga störfum á Íslandi. Breiður hópur íslenskra fyrirtækja framleiðir vörur undir vörumerki Icelandic sem byggir á traustum grunni eftir farsælt starf útflytjenda á liðnum áratugum.

„Það er okkur mikil ánægja að skrifa undir langtímasamning um afnot af Icelandic Seafood vörumerkinu. Við höfum notað það fyrir afurðir okkar í Suður-Evrópu til langs tíma með góðum árangri. Héðan í frá munum við kappkosta að styrkja það enn frekar og hefja markvissa sókn með merkið inn á markaði fyrirtækisins í Norður-Evrópu,“ segir Bjarni Ármannsson forstjóri Iceland Seafood International.

„Fyrir Icelandic vörumerkið er ánægjulegt að geta gengið frá samningi við Iceland Seafood um aukna notkun á því öfluga vörumerki í Evrópu. Icelandic hefur þegar verið nýtt í áratugi í Bandaríkjunum með góðum árangri,“ segir Þorkell Sigurlaugsson, stjórnarformaður eignarhaldsfélags ICELANDIC vörumerkisins.

Sumarið 2020 tók Íslandsstofa við umsjón með vörumerkinu, þar með talið ábyrgð á kynningu og umsjón með lögformlegri verndun þess. Samningar eru þegar í gildi um notkun Icelandic fyrir íslenskar sjávarafurðir sem seldar eru í Bandaríkjunum, Asíu og Suður-Evrópu.  Nú er blásið til frekari sóknar.

Vörumerkið Icelandic er í eigu félagsins Icelandic Trademark Holding (ITH) sem er í eigu ríkissjóðs. Tilgangur með rekstri þess er að auka verðmæti og auðvelda markaðsaðgengi íslenskra sjávarafurða og auka verðmæti þeirra á grundvelli gæða, sjálfbærni og uppruna.

Á myndinni eru Þorkell Sigurlaugsson, stjórnarformaður eignarhaldsfélags ICELANDIC vörumerkisins, Bjarni Ármannsson forstjóri Iceland Seafood International og Bergþóra Halldórsdóttir, forstöðumaður viðskiptaþróunar Íslandsstofu.

/

Sjá allar fréttir
Frétta mynd

20. september 2022

Lauf Forks og Sidekick Health hljóta Nýsköpunarverðlaun Íslands
Frétta mynd

19. september 2022

Sendinefnd til Singapore - nýsköpun, háskólar og rannsóknir
Frétta mynd

19. september 2022

Nýsköpunarþing 2022 - Hugvitið út
Frétta mynd

16. september 2022

Verkefnastjóri fyrir innlent markaðsstarfs Grænvangs