15. desember 2023

Markaðsaðgerðir vegna jarðhræringa í Grindavík

Ljósmynd

Menningar- og viðskiptaráðherra hefur lagt fram 100 m. kr. til markaðsaðgerða til að kynna Ísland sem áfangastað. Mynd: Isavia

Íslandsstofu hefur verið falið að halda utan um markaðsaðgerðir til kynningar á Íslandi sem áfangastað til að bregðast við þeirri stöðu sem komin er upp vegna jarðhræringa við Grindavík. Nokkuð hefur borið á samdrætti í bókunum og er markaðsátakinu ætlað að sporna gegn þessari þróun og örva bókanir á fyrri hluta næsta árs. Menningar- og viðskiptaráðherra hefur lagt fram 100 m. kr. framlag til verkefnisins.

„Tilgangur aðgerðanna er að styðja við ferðaþjónustu í kjölfar jarðhræringanna og þeirrar alþjóðlegrar umfjöllunar sem fylgt hefur í kjölfarið. Markmiðið með markaðsátakinu er að bregðast við stöðunni í Grindavík og samdrætti í bókunum fyrir næsta sumar. Er þetta gert til að hægt sé að reyna að standast áætlanir næsta árs,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra.

Samkvæmt frétt á vef Stjórnarráðs Íslands snúa aðgerðirnar að því að miðla réttum upplýsingum um stöðu mála, viðhalda eftirspurn eftir íslenskri ferðaþjónustu, styrkja ímynd Íslands sem áfangastaðar og fyrirbyggja verulega lækkun gjaldeyristekna frá ferðaþjónustu. Frá árinu 2011 hefur neytendamarkaðssetning á áfangastaðnum Íslandi átt stóran þátt í að byggja upp þann áhuga og þá eftirspurn sem Ísland nýtur nú góðs af. Ekkert fjármagn hefur verið lagt til neytendamarkaðssetningar áfangastaðarins frá og með árinu 2023.

Afbókanir um jól og áramót

Ferðamálastofa hefur nýlega kannað áhrif jarðhræringa á Reykjanesi, og umfjöllun í alþjóðlegum miðlum, á fyrirtæki í ferðaþjónustu. Nær það jafnt til flugfélaga, hótel og gististaða, bílaleiga og afþreyingarfyrirtækja. Samtöl við aðila í ferðaþjónustu leiða í ljós, nú þegar um fjórar vikur eru liðnar frá því að atburðarrásin á Reykjanesi hófst, að áhrif á ferðaþjónustuna eru heilt yfir þó nokkur. Sérstaklega á það við til skamms tíma.

Töluvert er um afbókanir um jól og áramót og ekki er mikið að bætast við nýjar bókanir fyrir það tímabil, enda stuttur tími til stefnu. Virðist þessi staða eiga jafnt um flug, gistingu og afþreyingu.

Hægt hefur verulega á innflæði nýrra bókana hjá íslenskum ferðaþjónustufyrirtækjum. Til lengri tíma, þar með talið næsta sumars, eru því ákveðnar blikur þar á lofti. Bæði íslensku flugfélögin hafa sent frá sér afkomuviðvaranir og hafa fellt úr gildi afkomuspá sína á þessu ári.

Þetta er í takt við þær upplýsingar sem Íslandsstofu hefur borist frá aðilum í íslenskri ferðaþjónustu og erlendum bókunaraðilum um að dregið hafi úr innflæði nýrra bókana næstu mánuði. Alvarlegt væri ef sú staða héldi áfram og færi að hafa áhrif á mánuði sem alla jafna eru veikir í ferðaþjónustu, svo sem apríl mánuð, en ekki síður ef þessi þróun myndi hafa merkjanleg áhrif á stærstu og mikilvægustu mánuði ársins.

Stærsti bókunarglugginn fram undan

Framundan er stærsti bókunargluggi ársins sem nær frá lokum desember fram í miðjan janúar um það bil. Þetta tímabil hefur mikil áhrif á það hvernig ferðasumarið 2024 mun líta út, en þá eru stærstu markaðir íslenskrar ferðaþjónustu að skipuleggja sín sumarleyfi. Ef núverandi óvissa og samdráttur teygir sig inn í þetta tímabil kynni það að hafa umtalsverðar afleiðingar fyrir bókunarstöðu sumarið 2024.

Útflutningsverðmæti ferðaþjónustunnar eða gjaldeyristekjur af ferðamönnum voru um 455 milljarðar króna árið 2022 (skv. Ferðamálastofu og Hagstofu Íslands) og miðað við svipaðar tekjur af hverjum ferðamanni þá stefnir útflutningsverðmætið í um 650 ma. kr. árið 2024. Ef hins vegar hamfarir myndu valda því að einungis ein og hálf milljón ferðamanna sækti landið heim árið 2024 þá myndu útflutningsverðmætin lækka um 260 milljarða króna og verða um 390 ma. kr.

Til að bregðast við núverandi stöðu lagði menningar- og viðskiptaráðherra til í minnisblaði til ríkisstjórnarinnar að Íslandsstofu verði falið að halda utan um markaðsaðgerðir til kynningar á Íslandi sem áfangastað (neytendamarkaðssetning í ferðaþjónustu). Menningar- og viðskiptaráðuneytið mun eins og áður segir leggja fram sérstakt 100 m.kr. framlag í verkefnið.

Markaðsaðgerðir munu hefjast á lykilmörkuðum áfangastaðarins Íslands, í Bandaríkjunum, Bretlandi og Þýskalandi strax á milli jóla og nýjárs og standa fram í febrúar mánuð.

Markaðsaðgerðir vegna jarðhræringa í Grindavík

Sjá allar fréttir