11. júní 2024

Lykilaðilar í breskum sjávarútvegi upplifðu sjómannadaginn

Ljósmynd

Hér má sjá mynd af hópnum. Íslandsferðin var hluti af markaðsverkefninu Seafood from Iceland sem Íslandsstofa er í forsvari fyrir.

Í byrjun júní skipulagði Íslandsstofa fjögurra daga heimsókn til Íslands fyrir Fish&Chips vinningshafa og fjölmiðlafólk frá Bretlandi. Markmið ferðarinnar var að kynna íslenska fiskinn og leyfa þeim að upplifa sjómannadaginn í íslensku sjávarþorpi. Ferðin var hluti af markaðsverkefninu Seafood from Iceland sem Íslandsstofa er í forsvari fyrir.

Verkefnið Seafood from Iceland hefur tekið þátt í National Fish&Chip Awards í London síðustu ár sem er nokkurs konar “Óskarsverðlaun” fyrir fish&chips geirann í Bretlandi. Hópurinn sem kom til Íslands samanstóð af verðlaunahöfum og nokkrum sjávarútvegsfjölmiðlum sem fylgdu hópnum.

Í Reykjavík fengu erlendu gestirnir kynningu á samskiptum Íslands og Bretlands í tengslum við útfærslu fiskveiðilögsögunnar. Einnig heimsóttu þau lykilframleiðanda á sjófrystum flökum fyrir breska markaðinn (Brim) og fengu að fara um borð í frystiskipið Vigra RE 71. Þá fékk hópurinn kynningu á Sjávarklasanum og snæddu fisk og franskar á Grandanum á nýopnuðum veitingastað, “Fish and Chips Vagninn”, en veitingastaðurinn fékk einmitt tilnefningu sem besti fish&chips staðurinn utan Bretlands, á áðurnefndri hátíð í London.

Á Snæfellsnesi tók einstök náttúra og hlýr faðmur heimamanna á móti hópnum. Sigling og sjóstöng frá Stykkishólmi, Sjóminjasafnið á Hellissandi, vöfflukaffi með sjómönnum á kaffihúsinu Gilbakka, fiskisúpa og plokkfiskur í boði  Sjávariðjunnar, sjómannadagskrá á Rifi, heimsókn í Frystiklefann Rifi og sjómannadagsball í Ólafsvík. – Þetta var hluti af því sem hópurinn afrekaði á Snæfellsnesinu. Þá upplifðu þau íslenskra matarmenningu á heimsmælikvarða þar sem íslenski fiskurinn var í aðalhlutverki.

Á meðal gesta í ferðinni voru Kevin Mitchell og Charlotte Mitchell sem eru eigendur „Knight´s Fish Restaurant“ sem var valinn besti fish&chip veitingastaðurinn í Bretlandi 2024. Hjónin voru í sinni fyrstu Íslandsferð og höfðu m.a. þetta að segja: „Eftir að við komum aftur heim höfum við með stolti sagt okkar viðskiptavinum allt um Ísland og hvað við lærðum í ferðinni um þorskinn og sjávarútveginn á Íslandi. Nú segi ég þeim líka að ég hafi farið um borð í togarann sem hafi veitt fiskinn sem séu að fara borða. Það hefur verið mikil upplifun hjá okkur að vinna þessi verðlaun en tækifærið að koma til Íslands var hápunkturinn“, sögðu þau Kevin og Charlotte um upplifun sína af ferðinni.

Gestirnir frá Bretlandi fengu hlýjar móttökur hvar sem þau komu. Núna eru þau komin til síns heima, til Glastonbury, Belfast, London, Bath o.fl. með góða sögu af Íslandi, íslenska fiskinum og öllu skemmtilega fólkinu sem þau kynntust.

Hér fyrir neðan má sjá myndir frá heimsókninni.

Lykilaðilar í breskum sjávarútvegi upplifðu sjómannadaginn

Sjá allar fréttir