20. mars 2024

Lífið er íslenskur saltfiskur fyrir spænska kokkanema

Ljósmynd

Kokkaneminn Marta Oti frá Barcelona sigraði keppnina og fær í verðlaun draumaferðalag til Íslands

Þann 20. mars fór fram árleg keppni milli matreiðslunema þar sem færasti ungi saltfiskkokkur Spánar var valinn í Mérida á Spáni. Þetta er í þriðja skipti sem þessi keppni fer fram, en í þetta sinn tóku 18 skólar þátt, frá öllum hornum Spánar, eftir undankeppni í hverjum og einum þeirra.

Árlega taka því hátt í 200 nemar þátt í þessum keppnum á Spáni, auk allra hinna sem fylgjast með. Þannig má ætla að á hverju ári hafi stór hluti nýútskrifaðra kokka fengið góða kynningu á íslenskum saltfiski! Hann er enda uppistaðan í mörgum vinsælum réttum á Spáni, okkar stærsta saltfiskmarkaði. Keppnin er hluti af markaðsverkefninu „Seafood from Iceland” sem Íslandsstofa hefur umsjón með. Sambærilegar keppnir fara einnig fram ár hvert í Portúgal og á Ítalíu, hinum stóru saltfisklöndunum.

Hlutskörpust þetta árið var kokkaneminn Marta Oti frá skólanum ESHOB í Barcelona og fær hún í verðlaun draumaferðalag til Íslands. Mikil keppnis-og sköpunargleði einkenndi framlag nemanna, sem flest eru á aldrinum 18-22 ára og að stíga sín fyrstu skref á þessum vettvangi. Myndirnar hér fyrir neðan tala sínu máli, en einnig er hægt að fylgjast með verkefninu á Instagram.

Lífið er íslenskur saltfiskur fyrir spænska kokkanema

Sjá allar fréttir