28. febrúar 2024

Íslenskur saltfiskur í sviðsljósinu á Ítalíu

Ljósmynd

Markaðsverkefnið Bacalao de Islandia stóð fyrir keppni á milli kokkaskóla á Ítalíu þar sem íslenskur saltfiskur var aðalhráefnið.

Besti ungi kokkur Ítalíu var valinn sunnudaginn 18. febrúar sl. í keppni sem haldin var af Bacalao de Islandia og FIC (Federazione Italiana Cuochi) á Rimini, Ítalíu. FIC eru samtök matreiðslumanna á Ítalíu og reka m.a. ítalska kokkalandsliðið. Keppnin var haldin samhliða bjór- og matarhátíðinni „Beer and Food attraction” sem fram fór dagana 18.-20. febrúar síðastliðinn.

Þátttakendur í viðburðinum komu frá öllum 20 héruðum Ítalíu og voru þeir sérstaklega valdir eftir forkeppni í sínum skólum. Viðfangsefnið sem allt snerist um var íslenskur saltfiskur og fengu skólarnir sem tóku þátt hráefni sent til að æfa sig á fyrir lokakeppnina.

Alessandro Abbrescia, 18 ára nemi frá kokkaskólanum Armando Perotti í Puglia héraðinu á Suður Ítalíu bar sigur úr býtum. Í keppninni fékk Alessandro tækifæri til að vinna með íslenskan þorsk í fyrsta sinn og kvað hann fjölbreytileika hráefnisins hafa komið sér skemmtilega á óvart. Réttur Alessandro bar titilinn „BACCA-TRA” og samanstóð af íslenskum saltfiski með laufum úr sedrusviði, toritto möndlum og ólífuolíu. „Fyrir mig var mikilvægt að blanda saman svæðisbundnum hráefnum frá Puglia héraði og íslenska saltfiskinum,” sagði Alessandro um sigurréttinn.  

Hér fyrir neðan má sjá myndband frá keppninni:

Þetta er í fjórða skiptið sem markaðsverkefnið Bacalao de Islandia stendur fyrir kokkaskólakeppni á Ítalíu og í annað sinn í samstarfi við FIC. „Ég verð að segja að samstarfið við ítalska kokkalandsliðið er gríðarlega dýrmætt og auðveldar mjög margt í framkvæmdinni sjálfri. Útbreiðsla vörunnar til 20 skóla í öllum héruðum Ítalíu væri mjög erfið nema fyrir tilstilli þessa samstarfs. Þá er öll fagmennskan sem einkennir lokaviðburðinn aðdáunarverð og að okkur sé boðið upp í þennan dans með íslenska saltfiskinn í sviðsljósinu er hreint út sagt frábær árangur,” sagði Björgvin Þór Björgvinsson, fagstjóri sjávarútvegs og matvæla hjá Íslandsstofu sem var fulltrúi Bacalao de Islandia á viðburðinum.

Sigurvegari keppninnar hlaut að launum Íslandsferð sem farin verður í september nk. og verður kennari hans einnig með í för, ásamt sigurvegurum sambærilegra viðburða á Spáni og Portúgal. 

Hér að neðan má sjá nokkrar myndir frá viðburðinum.

Íslenskur saltfiskur í aðalhlutverk á Ítalíu

Sjá allar fréttir