24. nóvember 2022

Kraumandi sköpunarkraftur á SLUSH í Helsinki

Ljósmynd

Fulltrúar 65 íslenskra fyrirtækja tóku þátt í SLUSH ráðstefnunni í Helsinki

Ísland var áberandi á tækni- og sportaráðstefnunni SLUSH sem fór fram í Helsinki dagana 17. og 18. nóvember. Íslandsstofa fór fyrir fjölmennri sendinefnd á viðburðinn og skipulagði þátttöku þeirra, í samstarfi við sendiráð Íslands í Helsinki og Iceland Innovation Week.

Á SLUSH, sem er stærsti viðburður sinnar tegundar í Evrópu, ræður sköpunarkraftur og frumleg hugsun ríkjum og er þetta kjörinn vettvangur fyrir frumkvöðla til að sækja innblástur og kynnast nýjungum í tækniheiminum.

Metþátttaka var frá Íslandi í ár og mættu fulltrúar 65 sprotafyrirtækja og fjárfesta á ráðstefnuna. Sendinefnd Íslands vakti nokkra athygli, ekki eingöngu vegna fjöldans heldur líka sökum fjölbreytileika. Fyrirtækin komu úr hinum ýmsu áttum - allt frá sviði EdTech, leikjaiðnaðar, gervigreindar og netöryggis, til tæknilausna um hámörkun orkunýtingar, styttingu fæðukeðjunnar, og bankaöryggis, svo örfá dæmi sé nefnd. Hér má sjá lista yfir öll fyrirtækin.

Mörg fyrirtækjanna voru að taka þátt í sínum fyrsta viðburði eftir Covid og þótt dagskrá þeirra hafi verið mismunandi, nýttu þau öll tækifærið til að funda augliti til auglitis og áttu sum hver allt að 20 fundi yfir daginn. Það kom þó ekki í veg fyrir að fulltrúar þeirra hefðu tíma til að prófa finnska gufubaðið, syngja í Karaoki eða taka þátt í öðrum viðburðum á vegum Slush og annarra samstarfsaðila.

Ísland var að þessu sinni með tvo hliðarviðburði - Breaking the Ice og Get to Snow Us. Báðir viðburðir voru haldnir fyrir fullu húsi, sá fyrri fór fram í bústað íslenska sendiráðsins í Helsinki og seinni var haldinn í sal á ráðstefnunni. Báðir þjónuðu þeir sama tilgangi og voru hugsaðir sem tækifæri fyrir fyrirtækin til að tengjast öðrum frumkvöðlum og fjárfestum, til að skiptast á skoðunum og byggja upp tengslanet til framtíðar.

Hér að neðan má sjá nokkrar myndir frá viðburðunum

Kraumandi sköpunarkraftur á SLUSH í Helsinki

Sjá allar fréttir