26. febrúar 2024

Íslensk menning á leið til Washington

Ljósmynd

Hljómsveitin GRÓA er meðal þeirra sem munu koma fram á tónleikum á Taste of Iceland í Washington.

Menningarhátíðin Taste of Iceland fer fram í Washington D.C. dagana 8. og 9. mars næstkomandi. Hátíðin hefur fyrir löngu fest sig í sessi enda verið haldin vítt og breitt um Bandaríkin undanfarin ár.

Á dagskrá hátíðarinnar eru fjölbreyttir viðburðir sem heimafólki og fjölmiðlum býðst að taka þátt í, með það að markmiði að kynna íslenska framleiðslu, menningu og listir. Að þessu sinni verður meðal annars boðið upp á samtal við glæpasagnahöfundana Ragnar Jónasson og Yrsu Sigurðardóttur, jarðfræði- og eldfjallafræðslu með Helgu Kristínu Torfadóttur og tónleika með íslensku úrvals tónlistarfólki auk þess sem landsliðskokkurinn Bjarki Snær Þorsteinsson mun galdra fram séríslenskan matseðil á veitingahúsinu Brasserie Beck.

Það er Íslandsstofa, undir merkjum Inspired by Iceland, sem stendur fyrir Taste of Iceland í samstarfi við Blá lónið, Iceland Music, Icelandair, Icelandia, Icelandic Glacial, Icelandic Lamb, Icelandic Provisions, Icelandic Seafood, Isavia, Landsvirkjun, Reyka Vodka og Visit Reykjavík.

Taste of Iceland í Washington er fyrsta menningarhátíðin af fjórum þetta árið en hátíðin verður auk þess haldin í Denver í maí, New York í september og loks í Seattle í október. Hér fyrir neðan má sjá kynningarmyndband um hátíðina á árinu 2024.

Nánari upplýsingar um Taste of Iceland í Washington má finna á vef Inspired by Iceland.

Íslensk menning á leið til Washington

Sjá allar fréttir