7. nóvember 2023

Íslensk fyrirtæki sækja eina stærstu vörusýningu Kína

Fulltrúar Íslands á CIIE vörusýningunni í Shanghæ

Kína er áhugaverður markaður fyrir íslensk fyrirtæki af mörgum ástæðum. Þar má nefna mikinn og vaxandi kaupmátt, gildandi fríverslunarsamninga milli Íslands og Kína, og jákvæð viðhorf almennings gagnvart Íslandi og íslenskum vörum.

Átta íslensk fyrirtæki taka þátt á þjóðarbás Íslandsstofu á vörusýningunni CIIE, China International Import Expo, sem hófst í Sjanghæ þann 6. nóvember og stendur til þess tíunda. Þetta er í fimmta skipti sem Íslandsstofa tekur þátt með þessum hætti, með dyggri aðstoð sendiráðs Íslands í Peking. Þessi sýning var sett á laggirnar af Xi Jinping, forseta Kína, og er ein sú stærsta og mikilvægasta sinnar tegundar.

Kína er áhugaverður markaður fyrir íslensk fyrirtæki af mörgum ástæðum. Þar má nefna mikinn og vaxandi kaupmátt, gildandi fríverslunarsamninga milli Íslands og Kína, og jákvæð viðhorf almennings gagnvart Íslandi og íslenskum vörum.

Þórir Ibsen, sendiherra Íslands í Peking, sem heimsótti básinn á fyrsta degi, komst svo að orði:
„Það er mér ánægja að sjá aukinn áhuga íslenskra fyrirtækja á Kína og tala við fulltrúa þeirra á CIIE. Mikil aukning hefur verið á útflutningi til Kína frá því að fríverslunarsamningur ríkjanna tók gildi fyrir 10 árum og reyndust árin 2021 og 2022 vera metár hvað útflutning varðar. Markaðir í Kína eru nú að taka við sér eftir Covid faraldurinn, og áhugi þeirra á Íslandi er áfram mikill, sem sýnir sig í því að umsóknir til sendiráðsins um vegabréfsáritanir hafa aldrei verið fleiri en undanfarna mánuði, sem bendir til þess að fjöldi ferðafólks frá Kína til Íslands muni ná fyrri hæðum.”

Fjölbreyttur hópur fyrirtækja tekur þátt á þjóðarbásnum: Omnom, Ísey Skyr, Bioeffect, Angan Skincare, King Eider, Eimverk, Reykjavík Distillery og Life Iceland. Þar að auki er Össur með veglegan bás, og Controlant kynnir á svokölluðu Innovation Incubation svæði.

Erla Friðriksdóttir, forstjóri King Eider, kynnir íslenskan æðardún á þjóðarbásnum. Hún hafði þetta að segja um upplifun sína af sýningunni:
„Það er flott skipulag á þessari sýningu og góður stuðningur við okkur sýnendur. Þetta eru fyrstu skref okkar inn á Kínamarkað og markmiðið er að finna góðan samstarfsaðila. Það hjálpar við að hafa íslenskan þjóðarbás, því Kínverjar tengja Ísland við gæði og hreinleika, og býsna margir sem þekkja eitthvað til. Þar að auki vita Kínverjar vel hversu mikilvægt er að eiga góða sæng og hefð fyrir því að kóngafólk noti æðardún.”

Hér að neðan má sjá nokkrar myndir frá sýningunni

Íslensk fyrirtæki sækja eina stærstu vörusýningu Kína

Sjá allar fréttir