8. mars 2023

Ísland tekur þátt á ITB ferðasýningunni í Berlín

Ljósmynd

Á ITB ferðasýningunni í Berlín taka um þessar mundir 27 íslensk fyrirtæki þátt, ásamt Markaðsstofu Norðurlands og Austurbrú.

Ferðaþjónusta á Þýskalandsmarkaði er komin á flug að nýju en nú fer fram ein stærsta ferðasýning í heimi, ITB Berlin, eftir þriggja ára hlé þar sem hún er haldin í raunheimum. Sýningin stendur yfir dagana 7.- 9. mars og er búist við að gestir hennar verði um 100.000 talsins þetta árið.

Ísland lætur sig að sjálfsögðu ekki vanta á sýninguna og skartar hópi 27 fyrirtækja á sameiginlegu svæði Norðurlandanna, ásamt Markaðsstofu Norðurlands og Austurbrú. Á staðnum eru hátt í 60 fulltrúar íslenskrar ferðaþjónustu sem kynna þar land og þjóð með sóma. Hér má skoða lista yfir fyrirtækin

Við hönnun íslenska þjóðarbássins var unnið með kjarnaskilaboðin „Looks like you need Iceland“ þar sem dregnir eru fram styrkleikar áfangastaðarins. Þar rúllar m.a. nýtt kynningarmyndband sem er hluti af herferðinni. Hægt er að horfa á myndbandið hér að neðan:


Auk þess að skipuleggja þjóðarbásinn var Íslandsstofa með móttöku með ferðamálaráðherra fyrir þýska blaðamenn í samstarfi við sendiráð Íslands í Berlín.

Sigríður Dögg Guðmundsdóttir, fagstjóri ferðaþjónustu hjá Íslandsstofu var ánægð með þátttöku Íslands á sýningunni: „Það var hvetjandi að finna sterkan áhuga á Íslandi og upplýsandi að skynja hve margir eru enn að glíma við afleiðingar heimsfaraldursins. Það er ekki sjálfgefið að hlutirnir gangi vel."

Norðurlöndin hafa um árabil verið með sameiginlegan bás á sýningunni ITB Berlin. Þetta samstarf hefur skilað okkur miklum ávinningi, þar sem hvert land hefur haft tækifæri til að draga fram sína sérstöðu, en um leið fengið aukinn sýnileika þar básinn er mjög stór eða yfir 150m2.

ITB er ein mikilvægasta ferðasýning sem við tökum þátt í og gefast þar ómetanleg tækifæri til að hitta erlenda samstarfsaðila og mynda ný viðskiptatengsl.

Íslandsstofa - Útflutningsaðstoð, landkynning, fjárfestingar

Sjá allar fréttir