6. nóvember 2023

Hverjir borða íslenskan fisk?

Ljósmynd

Í málstofunni miðluðu reynsluboltar úr íslenskum sjávarútvegi af sinni reynslu.

Íslandsstofa bauð til málstofunnar „Hverjir borða íslenskan fisk?” á Sjávarútvegsráðstefnunni sem haldin var í Hörpu þann 3. nóvember síðastliðinn og var mjög vel sótt. 

Sigríður Dögg Guðmundsdóttir, forstöðumaður útflutnings og fjárfestinga hjá Íslandsstofu var málstofustjóri en Björgvin Þór Björgvinsson fagstjóri sjávarútvegs hjá Íslandsstofu hafði umsjón með henni.

Í málstofunni kom meðal annars fram að Ísland flytur út sjávarafurðir til u.þ.b. 85 landa. Rætt var hvaða vörur þetta eru og hvernig þær birtast neytendum. Vörurnar eru þekktar fyrir mjög góð gæði og afhendingaröryggi. Hins vegar er ekki öllum ljóst hvert þessar vörur fara og hverjir hinir eiginlegu neytendur eru.

Til að segja þessar sögur voru fengnir reynsluboltar í greininni til miðla af sinni reynslu. Þetta voru Guðmundur Stefánsson, framkvæmdastjóri Novo Food, Birgir Össurarson sölustjóri Ice fresh Seafood, Agnes Guðmundsdóttir, markaðsstjóri Icelandic Asia og Níels Adolf Guðmundsson, sölustjóri hjá Iceland. Erindi þeirra, sem sjá má hér að neðan, voru hvert öðru áhugaverðara. Að kynningum loknum hófust líflegar pallborðumræður um sölu sjávarafurða og markaðina sjálfa. 

Ferskfiskneysla í Frakklandi – Guðmundur Stefánsson, Novo Food.  
Markaðssetning á laxi og bleikju til Norður Ameríku – Birgir Össurarson, Ice Fresh Seafood 
Hvar endar loðnan? – Agnes Guðmundsdóttir, Icelandic Asia  
Saltfiskur í lífi þjóðar – Níels Adolf Guðmundsson, Iceland  

Það er óumdeilt að íslenskur fiskur er gæðavara, sem er eftirsótt hjá innkaupaaðilum víðsvegar um heim. Sú gæðavitund hefur hins vegar ekki náð að skila sér til neytenda á okkur helstu mörkuðum nema í mjög litlum mæli. Þessu þarf að breyta. En þá þarf samstarf fyrirtækja og mjög öflugt markaðsstarf fyrir íslenska fiskinn sem við erum öll svo stolt af. 

Hér að neðan má sjá nokkrar myndir frá málstofunni

Hverjir borða íslenskan fisk? - Málstofa á Sjávarútvegsráðstefnunni

Sjá allar fréttir