8. desember 2023

Hönnun margmiðlunarsýningar á World Expo í Japan

Ljósmynd

Opnað hefur verið fyrir tilboð í hönnun margmiðlunarsýningar á Heimssýningunni í Osaka árið 2025 á útboðsvef Evrópusambandsins.

Heimssýningin (e. World Expo) fer fram í Osaka í Japan 13. apríl – 13. október 2025. Búist er við að um 28 milljón manns heimsæki sýninguna á því tímabili. Japan er þriðja stærsta hagkerfi heims og þar eru mikil viðskiptatækifæri fyrir norræn fyrirtæki. Norðurlöndin verða með sameiginlegan skála þar sem þau munu vinna saman að því að efla viðskiptasambönd landanna á þessum markaði. Lögð verður sérstök áhersla á að kynna grænar lausnir á sviði umhverfis- og loftslagsmála. Þátttaka Íslands er samvinnuverkefni utanríkisráðuneytisins og Íslandsstofu.

Þegar hefur verið hafið samstarf við franska fyrirtækið Rimond um byggingu sýningarskálans en útlit hans og form er tilbrigði við gamla húsagerð á Norðurlöndunum.  Í stærstum hluta byggingarinnar verður sýningarsvæðið þar sem margmiðlunarsýning mun miðla til gesta sérstöðu Norðurlandanna og hvernig þau hafa unnið saman í áratugi að því að skapa eitt samþættasta svæði veraldar.  Aðrir hlutar byggingarinnar eru fundaraðstaða fyrir fyrirtæki og gesti þeirra ásamt útisvæði á þaki þar sem hægt er að bera fram veitingar.

Opnað hefur verið fyrir útboð

Þann 7. desember var opnað fyrir tilboð í hönnun þessarar margmiðlunarsýningar á útboðsvef Evrópusambandsins. Í kröfulýsingu segir að tilboðsgjafi skuli koma með fullmótaða sýningu með öllum tækjabúnaði, reka hana á meðan á heimssýningunni stendur og taka niður að henni lokinni.
Finna má allar nánari upplýsingar um útboðið á útboðsvef Evrópusambandsins.

Hönnun margmiðlunarsýningar á World Expo í Japan

Sjá allar fréttir