8. nóvember 2023

Góð vitund um Ísland sem heilsársáfangastað á WTM í London

Fulltrúar Íslandsstofu og Markaðsstofa landshlutanna á WTM í London ásamt Elizu Reid forsetafrú

Á myndinni má sjá hluta af fulltrúum Íslands á World Travel Market 2023 sem standa vaktina á básnum, ásamt Elizu Reid forsetafrú.

Ferðasýningin World Travel Market hófst á mánudag í London með pompi og prakt. Þessi árlega sýning er ein stærsta ferðasýning í heimi og stendur yfir í þrjá daga en búist er við að yfir 50 þúsund gestir sæki viðburðinn.

Í ár eru samankomnir fulltrúar 19 íslenskra fyrirtækja í ferðaþjónustu ásamt þremur markaðsstofum landshlutanna á þjóðarbás Íslands þar sem sýnt var undir merkjum Visit Iceland. Meðal sýnenda frá Íslandi eru ferðaskrifstofur, hótel, afþreyingarfyrirtæki, baðlón og flugfélög.
Hér má sjá lista yfir íslensku fulltrúana

WTM er alþjóðleg ferðasýning og kaupendur koma hvaðanæva að í heiminum. Ísland er eina Norðurlandið með þjóðarbás á sýningunni að þessu sinni. Áhugi á Íslandi er mikill sem aldrei fyrr og er stöðugur straumur gesta á þjóðarbás Íslands. Mikið er rætt um Ísland sem heilsársáfangastað, auðveldar flugleiðir til landsins og þá hefur beint flug EasyJet frá Gatwick til Akureyrar vakið mikla athygli.

Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands fagnaði nýju flugleiðinni og hafði þetta að segja: „Tækifærin sem skapast með beinu flugi easyJet til Norðurlands hafa vakið mikla athygli á WTM bæði meðal einstaklinga og ferðamanna. Forstjóri easyJet sem flytur 100 milljónir farþega á ári í 340 þotum fjallaði um þetta nýja flug sem dæmi í erindi hjá sér um sjálfbæran áfangastað þar sem flugið hefði mikil jákvæð áhrif fyrir heimafólk og fyrirtæki í öllum atvinnugreinum enda skipti hugarfarið um að vinna með félaginu miklu máli.“ Þá sagði hún bókanir ganga samkvæmt áætlunum og að búast mætti við að salan muni taka kipp í framhaldi af umfjöllun og nýjum pökkum sem unnir eru á sýningunni, og að þannig verði ný gátt inn í Ísland opnuð til framtíðar.

Forsetafrú Íslands, Frú Eliza Reid er með í för á sýningunni. Eliza hefur verið frábær ambassador fyrir Ísland og var meðal annars í viðtölum hjá NBC Universal, History Channel og hjá Simon Caldwell , sem skrifar m.a. fyrir The Independent, Guardian o.fl. Þá hefur hún verið gestur í podköstum, ásamt því að taka þátt í tveimur pallborðsumræðum, svo fátt eitt sé nefnt.

Á öðrum degi sýningar var boðið í móttöku á básnum sem Sturla Sigurjónsson, sendiherra Íslands í London sótti, ásamt forsetafrúnni og áttu þau góð samtöl við fulltrúa íslensku fyrirtækjanna.

Allir fulltrúar Íslands á World Travel Market 2023 í London

Hér að neðan má sjá fleiri myndir frá sýningunni

Góð vitund um Ísland sem heilsársáfangastað á World Travel Market í London

Sjá allar fréttir