21. júní 2023

Gangverk hlýtur Útflutningsverðlaunin og Hanna Birna heiðruð

Ljósmynd

Á mynd eru aðaleigendur Gangverks, Atli Þorbjörnsson og Óli Björn Stephensen, forseti Íslands Guðni Th. Jóhannesson, Hanna Birna Kristjánsdóttir og Hildur Árnadóttir, formaður stjórnar Íslandsstofu.

Hugbúnaðarfyrirtækið Gangverk hlaut í dag Útflutningsverðlaun forseta Íslands 2023. Atli Þorbjörnsson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins veitti verðlaununum viðtöku við hátíðlega athöfn á Bessastöðum. Við sama tilefni var Hanna Birna Kristjánsdóttir heiðruð fyrir störf sín á alþjóðavettvangi.

Markverður árangur og mikill vöxtur á skömmum tíma

Gangverk er stafræn vöruhönnunarstofa sem sérhæfir sig í stafrænni umbreytingu fyrirtækja. Fyrirtækið er leiðandi á sínu sviði og hefur byggt upp sérstöðu við að takast á við flóknar tæknilegar áskoranir sem hafa skilað hágæða vörum á alþjóðamarkað.

Upphaf fyrirtækisins var markað árið 2011 þegar fjölmiðlafyrirtækið CBS í Bandaríkjunum leitaði til félagsins til að leiða þróun á dreifingu allra útvarpsstöðva þeirra til snjalltækja á heimsvísu.
Síðan þá hefur fyrirtækið sinnt ýmsum spennandi risaverkefnum fyrir fyrirtæki á borð við Sotheby's, stærsta uppboðshús heims. Á sjö árum hefur Gangverk hannað, þróað og smíðað nánast alla stafræna vegferð þessa heimsfræga fyrirtækis og fer nú nánast öll starfsemin fram á netinu.

rich text image

Atli Þorbjörnsson, framkvæmdastjóri Gangverks tekur hér á móti verðlaununum frá forseta Íslands.

Á síðastliðnum árum hefur félagið samið við nýja viðskiptavini á borð við ferðaskrifstofuna Lindblad Expeditions og heimahjúkrunarfyrirtækið TheKey, eitt af stærstu fyrirtækjum í sínum geira á Bandaríkjamarkaði. Aðrir mikilvægir viðskiptavinir félagsins eru Kvika banki og flugfélagið Play. Þá hefur Gangverk einnig þróað eigin vörur, svo sem Basta.ai, Dala.care og Sling.

Gangverk hefur náð markverðum árangri á skömmum tíma, hjá fyrirtækinu starfa í dag um 120 manns við stafræna vöruþróun. Meginþorri starfseminnar fer fram hér á Íslandi, en dreifist þó einnig til 9 landa, frá Danmörku, Svíþjóð, Hollandi, Englandi og Spáni, yfir til Bandaríkjanna, Ástralíu, Uruguay og Japans.

Tekjur Gangverk á síðasta ári voru um 2,2 milljarðar króna og hafa þær vaxið um ríflega 75% á sl. 3 árum. Á sama tíma hefur starfsmönnum fjölgað úr 40 í 120, en fyrirtækið hefur stækkað jafnt og þétt undanfarin ár í kjölfar aukinna umsvifa bæði hjá núverandi viðskiptavinum en eins með innkomu nýrra viðskiptavina.

Hefur látið til sín taka í réttindamálum kvenna

rich text image

Hanna Birna Kristjánsdóttir var heiðruð fyrir vel unnin störf í þágu réttinda kvenna á alþjóðavísu.

Hanna Birna Kristjánsdóttir hefur verið áberandi á sviði borgar- og stjórnmála á Íslandi og alþjóðavettvangi til margra ára.

Hún lagði stund á stjórnmálafræði við Háskóla Íslands og sótti að því búnu háskólann í Edinborg þar sem hún lauk meistaranámi í Evrópskum og alþjóðlegum stjórnmálum árið 1993.

Að námi loknu tók hún fljótt til starfa á sviði stjórnmálanna og sinnti ýmsum störfum á þeim vettvangi. Hún var framkvæmdastjóri þingflokks sjálfstæðismanna og síðan varaframkvæmdastjóri um árabil. Þá starfaði hún í borgarstjórn Reykjavíkur í 15 ár. Hún var m.a. forseti borgarstjórnar, kjörin borgarstjóri Reykjavíkur árið 2008 þar sem hún sat í embætti í tvö ár. Þá starfaði hún einnig sem innanríkisráðherra á árunum 2013-2014 og sem þingmaður til þriggja ára.

Árið 2016 ákvað Hanna Birna að venda kvæði sínu í kross og sagði skilið við stjórnmálin. Hún tók þá að starfa við sitt helsta áhugamál; jafnrétti kynjanna.

Hanna Birna lætur sig réttindi kvenna miklu varða og er stofnandi og stjórnarformaður Heimsþings kvenleiðtoga og sérlegur ráðgjafi á skrifstofu framkvæmdastjóra UN Women í New York. Þá hefur hún einnig verið í forsvari fyrir alþjóðlega ráðstefnu kvenleiðtoga sem haldin hefur verið í Hörpu.

Hún hefur á síðustu sjö árum látið markvisst til sín taka í þessum málaflokki og störf hennar hlotið verðskuldaða viðurkenningu á alþjóðavettvangi.

Árið 2016 var hún útnefnd sem ein af 100 áhrifamestu einstaklingum heims í jafnréttismálum af Apolitical. Þá hlaut hún árið 2021 norrænu Blaze verðlaunin fyrir áherslu á jafnrétti með stofnun Reykjavik Global Forum.

Um útflutningsverðlaunin
rich text image

Atli Þorbjörnsson, Guðni Th. Jóhannesson, Sigurður Atli Sigurðsson listamaður og Hildur Árnadóttir, formaður valnefndar.

Verðlaunagripurinn í ár er gerður af Sigurði Atla Sigurðssyni. Verkið heitir sætisskipan og er í þremur hlutum. Verkið sýnir hinar ýmsu útfærslur af uppröðun stóla í rými. Kerfisbundin athugun Sigurðar Atla beinist að því að myndgera með raðkenndum hætti þá undirliggjandi strúktúra og mynstur sem móta mannleg samskipti. Það felur jafnframt í sér hugleiðingar um skipan mála í þjóðfélaginu og um mismunandi valdahlutföll þar sem athyglin beinist ýmist að einum eða öllum.

Tilgangurinn með veitingu Útflutningverðlaunanna er að vekja athygli á þjóðhagslegu mikilvægi gjaldeyrisöflunar og alþjóðlegra viðskipta og heiðra þá sem hafa náð sérstaklega góðum árangri í sölu og markaðssetningu á íslenskum vörum og þjónustu erlendis. Veiting verðlaunanna tekur mið af verðmætisaukningu útflutnings, hlutdeild útflutnings í heildarsölu, markaðssetningu á nýjum mörkuðum og fleiru.  

Útflutningsverðlaunin eru nú veitt í 35. sinn en þau voru fyrst afhent árið 1989. Meðal fyrirtækja er hlotið hafa verðlaunin í gegnum tíðina eru Controlant, Icelandair, Íslensk erfðagreining, Ferðaþjónusta bænda og Marel og á síðasta ári hlaut EFLA verðlaunin.

Í úthlutunarnefndinni sátu að þessu sinni: Sif Gunnarsdóttir, frá embætti forseta Íslands, Gylfi Magnússon, frá viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands, Katrín Olga Jóhannesdóttir frá Viðskiptaráði, Þórunn Sveinbjörnsdóttir, frá Alþýðusambandi Íslands og Hildur Árnadóttir frá Íslandsstofu, en Íslandsstofa ber ábyrgð á kostnaði og framkvæmd við verðlaunaveitinguna.

Gangverk hlýtur Útflutningsverðlaun forseta Íslands 2023 og Hanna Birna heiðruð

Sjá allar fréttir