9. maí 2023

Rafræn viðskipti og streymiskynningar í Kína

Ljósmynd

Á fundinum var sjónum beint að rafrænum viðskiptum með áherslu á cross-border e-commerce sem einfaldar erlendum fyrirtækjum leið inn á markað í Kína.

Mánudaginn 8. maí stóðu Íslandsstofa og sendiráð Kína á Íslandi fyrir kynningarfundi um rafræn viðskipti og lifandi streymiskynningar með áhrifavöldum í Kína. Markmiðið var að kynna tækifæri til markaðssetningar og sölu til neytenda í Kína í gegnum rafræna miðla með s.k. cross-border viðskipum, en Kínverjar hafa einfaldað mjög allar reglur þeim tengdum. Á fundinum var m.a. sagt frá reynslu fyrirtækjanna Össurar og Bioeffect af rafrænum viðskiptum, sem þau hafa stundað um nokkurra ára skeið, og örri þróun á þessu sviði.

Fimm kínverskir áhrifavaldar tóku þátt í fundinum en þeir eru staddir hér á landi ásamt stórum hópi aðstoðar- og tæknifólks frá sölusíðunum Douyin og Tmall. Í samstarfi við Ísmoli Marketing Group munu þeir næstu daga vinna með hópi íslenskra fyrirtækja að lifandi streymiskynningum og sölu. Heimsókn áhrifavaldanna er í tilefni af söluhátíð sem nú stendur yfir í Kína og ætlað er að kynna og ýta undir sölu á vönduðum vörum og vörumerkjum. Hátíðin er haldin í fimmta sinn en í fyrsta skipti kynnt utan Kína og styðja kínversk stjórnvöld komu áhrifavaldanna til Íslands.

Hér að neðan má sjá nokkrar myndir frá viðburðinum.

Íslandsstofa - Útflutningsaðstoð, landkynning, fjárfestingar

Sjá allar fréttir