24. janúar 2023

Sérstaða Íslands þykir eftirsóknarverð á Spáni

Ljósmynd

Frá ferðasýningunni Fitur í Madrid. Ísland sem áfangastaður nýtur síaukinna vinsælda á Spáni en árið 2022 sóttu yfir 50 þúsund spænskir ferðamenn landið heim.

Á sunnudag lauk ferðasýningunni Fitur í Madrid á Spáni þar sem ellefu fyrirtæki tóku þátt undir merkjum Visit Iceland. Mikill straumur var á íslenska básinn og var gestum m.a. boðið að gæða sér á hágæða íslenskum saltfiski, sem féll að vanda í góðan jarðveg.

Áfangastaðurinn Ísland hefur nú fest sig í sessi á Spánarmarkaði og þykir sérstaða landsins mikil. Eftirspurn eftir upplýsingum um land og þjóð var umtalsverð á sýningunni. Mikið var spurt um ferðir utan háannar, norðurljósin, afþreyingu ýmis konar og baðlónin okkar.

Það er greinilegt að aukið framboð af beinu flugi Icelandair og Play frá ýmsum áfangastöðum á Spáni hjálpar til við að auka vitund og viðhalda áhuga á Íslandi sem áfangastað á þessum markaði.

Á bás Íslandsstofu á Fitur 2023 stóðu eftirfarandi fyrirtæki vaktina: Arctic Yeti, Holiday Tours, Iceland Travel, Icelandair, Icelandia, Island Tours, Reykjavík Sightseeing, Play, Sky Lagoon, Snæland Travel og Terra Nova.

Hér að neðan má sjá nokkrar myndir frá sýningunni.

Íslandsstofa - Útflutningsaðstoð, landkynning, fjárfestingar

Sjá allar fréttir