27. maí 2022

Erlendir áhrifavaldar og blaðamenn upplifa íslenska sjávarþorpið

Ljósmynd

Um miðjan maí skipulagði Íslandsstofa fjögurra daga ferð um Snæfellsnes fyrir tuttugu manna hóp fjölmiðla og áhrifavalda frá Bretlandi og Frakklandi. Markmið ferðarinnar var að kynna íslenska fiskinn, sjálfbærni og matarmenningu landsins. Dagskráin var fjölbreytt og var upplifun gestanna mjög góð. Ferðin var hluti af markaðsherferð sem Íslandsstofa hefur staðið fyrir síðastliðin ár. Herferðin nefnist Fishmas og er hluti af verkefninu Seafood from Iceland. Lykilmarkaðir fyrir Fishmas herferðina eru Bretland og Frakkland en þeir markaðir eru einmitt stærstu markaðirnir fyrir íslenskan fisk.

rich text image

Snæfellsnesið var hin fullkomna leikmynd þessa daga sem hópurinn dvaldi á svæðinu. Við þetta bættist síðan einstök gestrisni heimamanna og matarupplifun á heimsmælikvarða til að fullkomna uppskriftina á ferð sem enginn mun gleyma í bráð.

Eins og áður segir var dagskráin fjölbreytt: náttúruperlurnar Búðir, Arnarstapi, Hellnar og Djúpalónsandur voru heimsóttar, farið var um borð í línuskip og í fiskvinnslu á Rifi og þá var komið við á Sjóminjasafninu á Hellissandi. Fiskurinn var hins vegar í aðalhlutverki þessa daga.

rich text image

Á hafnarbakkanum í Stykkishólmi var landsliðskokkurinn Viktor Örn Andrésson með sýnikennslu í meðhöndlun á fiski og fengu gestirnir síðan sjálfir að spreyta sig m.a. í að flaka þorsk. Í Stykkishólmi upplifðu gestirnir bæinn í stuttum ratleik þar sem þau smökkuðu plokkfisk og rúgbrauð í heimahúsi en þar að auki fóru nokkrir gestanna á sjóstöng sem vakti mikla lukku. Fjölmargir veitingastaðir á svæðinu voru heimsóttir og má þar m.a. nefna: Viðvík á Hellissandi, Sjávarpakkhúsið og Narfeyrarstofu í Stykkishólmi og Bjargarstein í Grundarfirði þar sem óhindrað útsýni gesta á Kirkjufell var stórbrotið.

rich text image

Hópurinn var samansettur af áhrifavöldum og blaðamönnum frá Bretlandi og Frakklandi og margar færslur hafa birst frá upplifun þeirra af ferðinni. Leyla Kazim er breskur áhrifavaldur með yfir 100 þúsund fylgjendur á Instagram en hér má sjá hennar upplifun þegar hún veiddi og kyssti íslenskan þorsk. Af öðrum gestum má nefna franska áhrifavaldinn Hervé Palmieri sem heldur úti Instagram síðunni HervéCuisine en hér má sjá færslu hans frá Stykkishólmi.

rich text image

Ísland og íslenski fiskurinn sem hópurinn upplifði í fallegu sumarveðri og einstakri náttúru gleymist þeim eflaust seint. Vonumst við eftir að umfjallanir þeirra miðla um íslenska fiskinn og sjálfbærni auki hróður landsins enn frekar.

Erlendir áhrifavaldar og blaðamenn upplifa íslenska sjávarþorpið

Sjá allar fréttir