28. júní 2022

EFLA hlýtur Útflutningsverðlaun forseta Íslands og Víkingur heiðraður

Ljósmynd

Fyrirtækið EFLA hlaut í dag Útflutningsverðlaun forseta Íslands 2022. Sæmundur Sæmundsson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins veitti verðlaununum viðtöku við hátíðlega athöfn á Bessastöðum. 
Við sama tilefni var Víkingur Heiðar Ólafsson píanóleikari heiðraður fyrir störf sín á erlendri grund.

Stærsta verkfræðistofa Íslands með verkefni í yfir 40 löndum

EFLA hefur á undanförnum árum skapað sér sess sem alhliða þekkingarfyrirtæki og unnið markvert starf við að koma hugviti sínu og vörum á framfæri erlendis.

EFLA verkfræðistofa á rætur að rekja 50 ár aftur í tímann, þegar fyrstu forverar núverandi fyrirtækis urðu til. Árið 2008 varð samruni fjögurra verkfræðistofa, Línuhönnunar, RTS, Afls og Verkfræðistofu Suðurlands. EFLA hefur síðan þá tvöfaldast að stærð og þróast áfram sem þekkingarfyrirtæki á fjölbreyttum sviðum. Vöxtur fyrirtækisins hefur orðið bæði með samrunum og yfirtökum smærri fyrirtækja og eins með stöðugum innri vexti og er EFLA nú stærsta verkfræðistofa Íslands.

Fyrirtækið hefur starfað í íslensku samfélagi við uppbyggingu og þróun orkumála, innviða og atvinnulífs. Þar eru helstu viðskiptavinir t.d. sveitarfélögin, orku- og veitufyrirtæki, Vegagerðin, iðnaður og stóriðja, ferðaþjónustan og innviðir hennar, og sjávarútvegs- og fiskeldisfyrirtæki.

EFLA starfrækir öfluga viðskiptaþróun, þar sem meðal annars er unnið með erlendum aðilum að þróun atvinnutækifæra í útflutningi frá Íslandi. Fyrirtækið hefur unnið að veigamiklum verkefnum á sviði orkuflutningsmannvirkja víða um heim og er nú í fremstu röð á því sviði. Sem dæmi hefur EFLA samtímis verið með rammasamninga við landsnet allra Norðurlandanna um orkuflutning. Fyrirtækið er einnig með sterka sérhæfingu í stýringum og sjálfvirkni í iðnaði, og vinnur að staðaldri að verkefnum fyrir alþjóðleg iðnaðar- og orkufyrirtæki á því sviði. Þá hefur EFLA á síðasta áratug tekið þátt í verkefnum sem lúta að undirbúningi og þróun jarðvarmavirkjana og veitna víða um heim.

EFLU hefur tekist að marka sér spor sem þekkingarfyrirtæki á heimsvísu. Fyrirtækið er nú með starfsemi í dóttur- og hlutdeildarfélögum í sjö löndum, Noregi, Svíþjóð, Póllandi, Frakklandi, Þýskalandi, Skotlandi og Tyrklandi. Þar að auki hafa verkefni verið unnin á fjölmörgum sviðum í yfir 40 löndum á undanförnum áratug. Í dag starfa um 400 starfsmenn hjá samstæðunni. Velta EFLU árið 2021 var um 7,2 milljarðar króna. Yfir tímabilið 2009-2021 er núvirt heildarvelta í erlendri starfsemi og verkefnum EFLU um 20 milljarðar króna.

Upptökum Víkings Heiðars streymt 370 milljón sinnum

rich text image

Víkingur Heiðar er einn fremsti einleikari sem Ísland getur státað sig af. Hann byrjaði fimm ára gamall að spila á píanó og lauk einleikaraprófi við Tónlistarskólann í Reykjavík árið 2001. Sama ár þreytti hann frumraun sína með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Þaðan lá leiðin utan í Juilliard skólann í New York þar sem hann stundaði nám og lauk BM-prófi árið 2006 og MM-prófi árið 2008.

Að loknu námi byggði Víkingur markvisst upp feril sinn, í fyrstu mest megnis innanlands með stofnun útgáfufyrirtækisins Dirrindí árið 2009, tónlistarhátíðarinnar Reykjavík Midsummer Music árið 2012 og sjónvarpsþáttanna Útúrdúrs sem hann stýrði ásamt konu sinni Höllu Oddnýju Magnúsdóttur árin 2013-2014. 

Undanfarin 10 ár hefur stjarna hans risið hratt á erlendri grundu en í dag telst hann til eftirsóttustu einleikara heims og mun næsta vetur m.a. vera staðarlistamaður við Southbank Centre í London og koma fram með hljómsveitum á borð við Fílharmóníusveitirnar í Berlín, London og New York. Víkingur vinnur auk þess náið með nokkrum helstu tónskáldum samtímans, þeirra á meðal John Adams og Thomas Adès.

Upptökur Víkings fyrir Deutsche Grammophon hafa náð eyrum milljóna manna víða um veröld, en á undanförnum árum hefur þeim verið streymt 370 milljón sinnum. Hann hefur unnið til fjölda alþjóðlegra verðlauna og var meðal annars valinn listamaður ársins hjá Gramophone-tímaritinu árið 2019 auk þess að hljóta verðlaun fyrir plötu ársins hjá BBC Music Magazine sama ár. Þá hefur hann tvívegis hlotið þýsku tónlistarverðlaunin Opus Klassik fyrir bestu einleiksplötu og fyrr í vor var tilkynnt að Víkingur hljóti hin virtu Rolf Schock verðlaun sem afhent verða í Stokkhólmi í haust.

Um útflutningsverðlaunin
rich text image

Verðlaunagripurinn í ár er gerður af Rósu Gísladóttur. Verkið heitir Íhlutur (e. Component). Íhlutur er óræður stakur hlutur sem myndar nauðsynlegan hluta í heild. Án íhlutarins er heildin óvirk en ef hann er í lagi gegnir kerfið hlutverki sínu. Tröppurnar sýna margar leiðir að sama takmarki og hringurinn opnar augun fyrir nýjum möguleikum.

Tilgangurinn með veitingu Útflutningverðlaunanna er að vekja athygli á þjóðhagslegu mikilvægi gjaldeyrisöflunar og alþjóðlegra viðskipta og heiðra þá sem hafa náð sérstaklega góðum árangri í sölu og markaðssetningu á íslenskum vörum og þjónustu erlendis. Veiting verðlaunanna tekur mið af verðmætisaukningu útflutnings, hlutdeild útflutnings í heildarsölu, markaðssetningu á nýjum mörkuðum og fleiru.  

Útflutningsverðlaunin eru nú veitt í 34. sinn en þau voru fyrst afhent árið 1989. Meðal fyrirtækja er hlotið hafa verðlaunin í gegnum tíðina eru Íslensk erfðagreining, Icelandair, Nox Medical, Bláa lónið og Lýsi hf, og á síðasta ári hlaut Controlant verðlaunin.

rich text image

Í úthlutunarnefndinni sátu að þessu sinni: Sif Gunnarsdóttir, frá embætti forseta Íslands, Gylfi Magnússon, frá viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands, Katrín Olga Jóhannesdóttir frá Viðskiptaráði, Þórunn Sveinbjörnsdóttir, frá Alþýðusambandi Íslands og Hildur Árnadóttir frá Íslandsstofu, en Íslandsstofa ber ábyrgð á kostnaði og framkvæmd við verðlaunaveitinguna.

EFLA hlýtur Útflutningsverðlaunin og Víkingur heiðraður

Sjá allar fréttir