7. desember 2022

Bætt samkeppnishæfni Íslands í grænum fjárfestingum

Ljósmynd

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra ásamt stýrihópi um loftslagstengd græn nýfjárfestingarverkefni.

Umbætur í ferli verkefna og bætt þjónusta við fjárfestingaverkefni sem falla að markmiðum stjórnvalda í loftslagsmálum og grænni verðmætasköpun er markmið verkefnis með vinnuheitið "Græni dregillinn". Stýrihópur verkefnisins kom saman í fyrsta sinn hjá Íslandsstofu 5. desember en verkefnisstjórnin er í umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu.

Verkefnið er viðbragð við breyttri alþjóðlegri samkeppni um fjárfestingar og margvíslegri stefnumörkun innanlands, svo sem nýrri Útflutningsstefnu þar sem markmiðið er að Ísland verði þekkt sem leiðandi land á sviði sjálfbærni.

"Við fögnum mjög ríkum vilja íslenskra stjórnvalda, bæði ráðuneyta og lykilstofnana, til að bæta samkeppnisstöðu Íslands og stuðla sérstaklega að loftslagsvænum nýfjárfestingum," segir Pétur Óskarsson framkvæmdastjóri Íslandsstofu sem er fulltrúi í stýrihópnum. "Við sjáum að samkeppnislönd okkar leggja sífellt meiri áherslu á fyrsta flokks þjónustu, viðskiptaumhverfi og upplýsingamiðlun auk þess að skilgreina vel einstök tækifæri og lóðir hvort sem er hringrásarlausnir eða innan grænna iðngarða."

Formaður stýrihóps Græna dregilsins er Diljá Mist Einarsdóttir alþingismaður og í hópnum eiga sæti fulltrúar 8 ráðuneyta, Skipulagsstofnunar, Umhverfisstofnunar, Skattsins, Orkustofnunar, Byggðastofnunar, Íslandsstofu og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Verkefnið er m.a. afrakstur samráðs við öll landshlutasamtökin.

Sjá nánar tilkynningu umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins með lista yfir fulltrúa í stýrihópnum.

Bætt samkeppnishæfni Íslands í grænum fjárfestingum

Sjá allar fréttir