26. maí 2024

Aðgerðir Íslands í tengslum við heimsfaraldur og eldsumbrot ræddar á IMEX

Fulltrúar Meet in Reykjavik á IMEX í Frankfurt

Mynd, frá vinstri: Martha Gomez forseti ICCA, Anju Gomes svæðisstjóri hjá ICCA, Hildur Björg Bæringsdóttir viðskiptastjóri Meet in Reykjavík, Þórdís Lóa Þórhallsdóttir forseti borgarráðs og stjórnarformaður Meet in Reykjavík, Sigurjóna Sverrisdóttir viðskiptastjóri Meet in Reykjavík

Meet in Reykjavik sótti kaupstefnuna IMEX í Frankfurt þann 14. maí sl. ásamt níu íslenskum fyrirtækjum á sviði ráðstefnu- og hvataferðaþjónustu (MICE). Samhliða kaupstefnunni fór fram málstofan The Policy Forum, vettvangur fyrir stjórnmálaleiðtoga til að ræða tækifæri og áskoranir í ráðstefnu- og hvataferðaþjónustu út frá sjónarhóli áfangastaða.

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir forseti borgarráðs og stjórnarformaður Meet in Reykjavík sótti málstofuna og tók þar þátt í samtali stefnumótenda áfangastaða. Sigurjóna Sverrisdóttir, viðskiptastjóri Meet in Reykjavík var með í för og kynntu þær fyrir viðstöddum aðgerðir Íslands og Reykjavíkur í kjölfar landamæralokana vegna COVID-19 faraldursins og eldsumbrota á Reykjanesi. Hvoru tveggja hefur vakið athygli innan ráðstefnu- og hvataferðageirans sem vel heppnaðar aðgerðir til að takast á við óvæntar eða óhefðbundnar áskoranir.  

Í framhaldinu tóku á annað hundrað fulltrúar áfangastaða á sviði ráðstefnu- og hvataferðaþjónustu þátt í vinnustofu þar sem framtíð ráðstefnu- viðburðarhalds var rædd meðal annars út frá nýsköpun, gervigreind, siðferðilegum áskorunum, sjálfbærni o.fl.

IMEX kaupstefnan er haldin árlega í Frankfurt og er ætluð MICE fyrirtækjum, þar sem þeim gefst tækifæri á að kynna þjónustu sína fyrir kaupendum alþjóðlegra ráðstefna, hvataferða, funda og sýninga. Íslandsstofa sér um utanumhald á Íslandsbás undir merkjum markaðsverkefnisins Meet in Reykjavik – Iceland Convention Bureau. Níu fyrirtæki tóku að þessu sinni þátt í sýningunni undir hatti Meet in Reykjavik, en það voru Atlantik, Discover True North, Essence of Iceland, g-events dmc & pco, Harpa, Iceland Hotel Collection by Berjaya, Iceland Travel, Icelandair og Íslandshótel.

Hér fyrir neðan má sjá nokkrar myndir frá kaupstefnunni

Aðgerðir Íslands í tengslum við heimsfaraldur og eldsumbrot ræddar á IMEX

Sjá allar fréttir