Útflutningsgreinar

Ferða­þjón­usta

Ferðaþjónusta

Ferðaþjónustan er einn helsti máttarstólpi íslensks útflutnings.

rich text image

Íslensk ferðaþjónusta á tíma faraldurs

Ferðaþjónustan skilaði mestum útflutningstekjum fyrir heimsfaraldur en var jafnframt sú grein sem varð fyrir einna mestum skaða þegar fólk hætti að geta ferðast vegna takmarkana

Á þessum tíma hefur Íslandsstofa lagt áherslu á að viðhalda vitund um áfangastaðinn meðal markhóps erlendis með markaðsaðgerðum og standa vörð um viðskiptatengsl sem fyrirtæki í greininni hafa byggt upp undanfarin ár með tengslastarfi og viðburðum. Aðgerðir hafa í grunninn snúist um að stuðla að hröðum bata í ferðaþjónustu eftir því sem ferðavilji eykst og takmörkunum léttir. 

Vitund um áfangastaðinn Ísland haldið á lofti

Íslandsstofa skipulagði þátttöku á yfir 20 vinnustofum og sýningum á árinu þar sem yfir 130 fyrirtæki áttu fundi með erlendum ferðaheildsölum til að mynda og efla viðskiptatengsl. Tengiliðir við markaði sinntu jafnframt tengslastarfi með kynningum, fræðslu og samtölum við erlenda ferðaheildsala. Endurbætt útgáfa af Traveltrade.is vefnum var sett í loftið með nýjum gagnabanka þar sem upplýsingar og markaðsefni fyrir erlenda ferðaheildsala er aðgengilegt. Nýtt efni var framleitt fyrir vefinn s.s. myndbönd sem sýna Ísland sem áfangastað út frá matarferðaþjónustu og kvikmyndaferðaþjónustu. 

Vestnorden ferðakaupstefnan var haldin í október á Reykjanesi en þetta er stærsti viðburður sem Íslandsstofa heldur og ein mikilvægasta ferðasýning sem íslensk ferðaþjónustufyrirtæki taka þátt í. Vestnorden gekk mjög vel og var næstmesti fjöldi kaupenda í sögu Vestnorden. Um 180 erlendir ferðaskipuleggjendur og um 120 ferðaþjónustufyrirtæki frá Íslandi, Grænlandi og Færeyjum áttu samtals 3.425 fundi. Um 96% þátttakenda sögðu viðburðinn hafa staðið undir þeirra væntingum um myndun viðskiptatengsla og framtíðarviðskipti. 

rich text image

Almannatengsl og neytendamarkaðssetning

Almannatengslastofur Íslandsstofu í Bandaríkjunum, Bretlandi, Þýskalandi og Frakklandi vinna stöðugt að því að skapa umfjallanir um áfangastaðinn og sú vinna skilaði samtals um það bil 1600 umfjöllunum yfir árið. Skipulagðar voru 43 fjölmiðlaferðir, 38 einstaklingsferðir og 5 hópferðir. Eldgosið í Fagradal vakti mikla athygli erlendra fjölmiðla. Íslandsstofa var með beint streymi á Visiticeland.com vefnum í samvinnu við RÚV ásamt því að styðja við fjölda blaðamannaferða vegna eldgossins og svara fyrirspurnum. 

Daglegar færslur með kynningarefni um áfangastaðinn birtast á samfélagsmiðlum Íslandsstofu sem eru með samanlagt yfir milljón fylgjendur.  

Samstarfsverkefni í ferðaþjónustu

Í mars var gerður samningur milli Íslandsstofu og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins um Nature Direct markaðsverkefnið sem snýst um að kynna flugvellina á Akureyri og Egilsstöðum í samstarfi við ISAVIA, Austurbrú og Markaðsstofu Norðurlands. Átakinu er beint gagngert að erlendum flugfélögum með möguleika á beinu flugi á þessi svæði. Ráðgjafi var fenginn til starfa með það að leiðarljósi að til koma á tengslum við líkleg félög. Einnig hefur verið unnin ítarleg greining á möguleikum svæðanna, ásamt tæknilegum upplýsingum um flugvellina, sem komið hefur verið á framfæri til erlendu flugfélaganna.  

Í upphafi árs fór af stað vinna við að efla að efla neytendavef Visit Iceland sem alhliða upplýsingagátt fyrir erlenda ferðamenn í samstarfi Íslandsstofu, Ferðamálastofu og Menningar- og viðskiptaráðuneytisins. Endurskoðuð útgáfa af Visiticeland.com vefnum var sett í loftið í október með miklu nýju efni og þjónustueiningar á borð við kolefnisreikni og teljara á ferðamannastöðum.  

Íslandsstofa og Markaðsstofur landshlutanna skrifuðu á árinu undir samninga um samvinnu við erlenda markaðssetningu á Íslandi sem áfangastað. Íslandsstofa og Markaðsstofurnar hafa unnið náið saman um árabil en þarna var samstarfið formgert í samræmi við skilgreint hlutverk nýrra áfangastaðastofa sem Markaðsstofurnar sinna í sínum landshlutum. Samningurinn er til þriggja ára frá 2021 til og með 2023. 

Í tengslum við undirritun samninganna fór ferðaþjónustuteymi Íslandsstofu í heimsókn í alla landshluta til að hitta hagaðila í ferðaþjónustu og kynna sér stöðuna. 

Ferðaþjónusta

Markaðsstarf á sviði ferðaþjónustu

feature image

Ísland - Saman í sókn

Stærsta markaðsverkefnið í ferðaþjónustu er Ísland saman í sókn sem snýr að neytendamarkaðssetningu. Gegnum heimsfaraldurinn hafa markaðsaðgerðir snúist um að viðhalda vitund og áhuga meðal markhóps á lykilmörkuðum.


Á árinu voru tvær herferðir með áherslu á almannatengsl og ein herferð með áherslu á keyptar birtingar. Lesa má nánar um markaðsaðgerðir Ísland saman í sókn hér að neðan.

Saman í sókn 2021

feature image

Meet in Reykjavik

Meet in Reykjavík – Iceland convention bureau markaðsverkefnið snýst um að styrkja ímynd Íslands og Reykjavíkur sem eftirsóknarverður áfangastaður fyrir ráðstefnur, fundi, hvataferðir og alþjóðlega viðburði (MICE). Á árinu var farið í vinnu við endurmörkun, gerð nýrrar samskiptaáætlunar, framleiðslu nýs markaðsefnis og undirbúning fyrir nýjan vef. 

Riot tölvuleikjafyrirtækið, sem rekur tölvuleikinn League of Legends, valdi Ísland sem staðsetningu fyrir eitt stærsta mót ársins í apríl í kjölfar umsóknarvinnu sem Íslandsstofa leiddi í samstarfi hagaðila. Viðburðurinn gekk það vel að Riot ákvað að halda aðalmótið sitt á Íslandi um haustið. Þessir stóru viðburðir hafa sett Ísland á kortið sem áfangastað fyrir rafíþróttaviðburði. 

Skoða vef Meet in Reykjavik

Ársskýrsla 2021 - Ferðaþjónusta