Markaðsverkefni

Ísland - Saman í sókn

Ísland - Saman í sókn

Með markvissum aðgerðum hefur tekist að verja samkeppnisstöðu Íslands í erfiðu árferði, og styrkja ímynd Íslands sem áfangastaðar

rich text image

Eflum og viðhöldum góðri ímynd Íslands

Íslandsstofa skrifaði undir samning við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið um framkvæmd markaðsverkefnisins Ísland - saman í sókn í apríl 2020 í þeim tilgangi að auka eftirspurn eftir íslenskri ferðaþjónustu, styrkja ímynd Íslands sem áfangastaðar og viðhalda samkeppnisstöðu íslenskrar ferðaþjónustu og annarra útflutningsgreina á tímum heimsfaraldurs.

Við upphaf verkefnisins gerðu áætlanir ráð fyrir að mestum hluta fjármagnsins yrði varið sumarið 2020 í því skyni að draga úr fyrirsjáanlegum samdrætti í ferðaþjónustu. Eftir því sem leið á sumar, og afleiðingar heimsfaraldursins komu betur í ljós, breyttust áherslur í þá veru að styrkja ímynd Íslands sem áfangastaðar og viðhalda samkeppnisstöðu við erfiðar aðstæður yfir lengri tíma, og ákvörðun tekin að dreifa upphaflegu fjármagni til loka árs 2021. 

Yfir 7,4 milljarðar snertingar til markhóps

Með markvissum aðgerðum síðastliðið eitt og hálft ár hefur tekist að verja samkeppnisstöðu Íslands í mjög erfiðu árferði, og styrkja ímynd Íslands sem áfangastaðar. Á árinu 2021 hafa yfir 1160 umfjallanir um áfangastaðinn Ísland birst í erlendum fjölmiðlum fyrir tilstuðlan verkefnisins. Þessar umfjallanir hafa ásamt auglýsingum og samfélagsmiðlum, náð yfir 7,4 milljörðum snertinga til markhóps. Rannsóknir á ferðaáhuga til Íslands sýndu að markaðsaðgerðir skiluðu allt að 10% aukningu á ferðaáhuga á markaðssvæðum herferðarinnar. Kynningamyndbönd markaðsverkefnisins hafa verið spiluð yfir 83 milljón sinnum og yfir 24 milljón manns hafa brugðist við Íslandsskilaboðum verkefnisins markaðsverkefnisins á samfélagsmiðlum. Yfir milljón notendur hafa heimsótt vefsíður markaðsverkefnisins og kynnt sér allt það besta sem áfangastaðurinn hefur upp á að bjóða. Einnig hafa markaðsherferðir Saman í sókn nú þegar fengið 18 alþjóðleg verðlaun og viðurkenningar frá mörgum af virtustu fagaðilum og fagtímaritum heims fyrir afburðarárangur í markaðsmálum. 

rich text image

Markvissar aðgerðir hafa hjálpað til við að viðhalda sterkri samkeppnisstöðu í gegnum eitt erfiðasta tímabil íslenskrar ferðaþjónustu og mælist áfangastaðurinn vinsæll meðal ferðamanna í könnunum á markaðssvæðum. Viðbrögð við markaðsefni hafa sýnt að áhugi á að ferðast til Íslands er einatt meiri hjá þeim sem markaðsaðgerðir hafa náð til en samanburðarhópa. En það er mikilvægt að vinna stöðugt að því að viðhalda vitund og jákvæðu viðhorfi meðal okkar markhóps, ekki síst í ljósi þeirrar miklu samkeppni sem ætla má að verði um ferðamenn þegar faraldurinn fer að sleppa tökunum. 

Ævintýraeyjan Ísland - Joggingbuxum breytt í gönguskó 

Í júlí var erlendum ferðamönnum gert kleift að endurvinna margnotuðu heimsfaraldurs-joggingbuxurnar sínar og breyta þeim í gönguskó til halda á vit ævintýranna á Íslandi. Skórnir voru unnir í samstarfi við fatahönnuðinn Ýr Þrastardóttur. Herferðinni var fylgt úr hlaði með myndbandi við frumsamið lai Ásgeirs Orra Ásgeirssonar og Rögnu Kjartansdóttur - Sweatpant Boots – í flutningi rapparans sem er einnig þekkt sem Cell 7. Herferðin stóð yfir í 11 vikur, en megin áhersla var lögð á Bandaríkin, Kanada, Bretland, Þýskaland, Frakkland, Danmörku og Svíþjóð.  


Ísland kynnir Íslandsveruleikann 

Þann 11. nóvember var frumsýnt myndband á samfélagsmiðlum fyrir áfangastaðinn Ísland. Í myndbandinu var Íslandsveruleikinn (e. Icelandverse) kynntur til leiks, sem er fullkominn andstæða við þann sýndarveruleika sem stórfyrirtæki í upplýsingatækni hafa verið að móta undanfarið. Myndbandið var kynnt á samfélagsmiðlum 12 dögum eftir tilkynningu Mark Zuckerberg um fyrirætlanir Facebook um sýndarveruleikaheiminn Metaverse. Alls voru rúmlega 7 milljón áhorfa á myndbandið, og 1050 umfjallanir fjölmiðla um uppátækið. Samanlagt náði herferðin rúmlega 6 milljörðum snertinga.  


Hefur þú fengið nóg? Ísland er hér fyrir þig 

Markaðsefni úr herferðinni  „Looks Like You Had Enough“ sem fór í loftið 2020 var áfram nýtt til birtinga í Bandaríkjunum, Bretlandi og Danmörku þegar ferðatakmarkanir urðu rýmri á mörkuðum.  

Ársskýrsla 2021 - Saman í sókn