31. maí 2021

Áhugakönnun: China International Import Expo í Kína í nóvember

Íslandsstofa kannar áhuga fyrirtækja á þátttöku í kaupstefnunni China International Import Expo sem fer fram í Kína í nóvember 2021.

Kaupstefnan China International Import Expo (CIIE) fer fram í Shanghai í fjórða sinn dagana 5.- 10. nóvember nk. Á síðasta ári sóttu yfir 400.000 skráðir kaupendur viðburðinn og fékk hann umfjöllun frá yfir 3.000 fréttamiðlum um allan heim. Þátttaka í CIIE er kjörið tækifæri fyrir útflutningsfyrirtæki sem stefna á viðskipti á kínverska markaðinum. Sex íslensk fyrirtæki vorum með á Íslandsbásnum í fyrra og létu þau vel af þátttökunni. 

Það er erfitt að sjá fyrir hvernig reglum um ferðalög eða sóttvarnir verður háttað. Því er brýnt fyrir þátttökufyrirtæki að leita annarra leiða ef ekki verður hægt að ferðast utan. Til dæmis með því að fá aðila á staðnum til að manna básinn. 2020 stóðu umboðs- og dreifingaraðilar þátttökufyrirtækjanna vaktina, ásamt fulltrúum sendiráðs Íslands. 

Íslandsstofa kannar nú áhuga fyrirtækja á þátttöku í kaupstefnunni í ár. Tekið hefur verið frá pláss á sameiginlegu svæði Íslands í tveimur sýningarhöllum, Consumer Goods og Food and Agriculture:  

Consumer Goods 
Vörur sem falla undir eftirtalda flokka: Snyrtivörur, vörur fyrir ungabörn og nýbakaðar mæður, íþróttavörur, gæludýravörur, heilsuvörur, leikföng, gjafavörur, húsgögn og heimilisvörur, fatnaður og fylgihlutir, töskur, skófatnaður og fleira. 

Food and Agricultural Products 
Vörur á borð við: Kjötvörur, sjávarfang, drykkir og áfengi, mjólkurvörur, nasl, sælgæti, landbúnaðarvörur, 
krydd og fleira. 

Áhugasamir um þátttöku í kaupstefnunni eru beðnir að hafa samband við Kristin Björnsson, (kristinnb@islandsstofa.is) fyrir 7. júní.


Sjá allar fréttir