Um Íslandsstofu
Starfsemi
Starfsemi
Íslandsstofa er sjálfseignarstofnun sem rekin er á einkaréttarlegum grunni með sjálfstæðri fjárhagsábyrgð og starfar samkvæmt sérstakri skipulagsskrá.
Hlutverk
Íslandsstofa sinnir mörkun og markaðssetningu fyrir Ísland og íslenskar útflutningsgreinar, styður íslensk fyrirtæki í sókn á erlenda markaði og greiðir götu erlendrar fjárfestingar í íslensku atvinnulífi. Þjónusta Íslandsstofu byggir á víðtækri reynslu, sérhæfingu og faglegri dýpt, sem ekki er á færi einstakra aðila, auk hagkvæmri nýtingu fjármuna.
Stjórn Íslandsstofu
Í stjórn Íslandsstofu, sjálfseignarstofnunar, sitja sjö fulltrúar sem skipaðir eru á aðalfundi til þriggja ára í senn. Ráðherra sem fer með utanríkismál tilnefnir tvo stjórnarmenn, ráðherra sem fer með ferðamál, viðskipti og menningu einn og Samtök atvinnulífsins fjóra. Varamenn skulu tilnefndir með sama hætti. Í stjórn Íslandsstofu sitja eftirfarandi:
Ásthildur Otharsdóttir
Guðmundur Halldór Björnsson
Helga Árnadóttir
Hersir Aron Ólafsson
Hildur Árnadóttir (formaður)
Jens Garðar Helgason
Martin Eyjólfsson
Sjá einnig starfsreglur stjórnar, hæfisreglur stjórnenda og skipulagsskrá.
Skipurit Íslandsstofu
Starfsemi Íslandsstofu skiptist í eitt kjarnasvið; Útflutning og fjárfestingar, og þrjú stoðsvið; Markaðssamskipti, þróun og rekstur, og fjármál.
Útflutningur og fjárfestingar
Svið útflutnings og fjárfestinga er kjarnasvið og ber ábyrgð á þjónustu Íslandsstofu við fyrirtæki og hagaðila. Sviðið vinnur eftir útflutningsstefnu Íslands og veitir ráðgjöf og þjónustu til allra útflutningsgreina í því skyni að greiða fyrir markaðssetningu og útflutningi á vörum og þjónustu.
Markaðssamskipti
Svið markaðssamskipta er stoðsvið sem annast undirbúning, stefnumótun og framkvæmd markaðsverkefna Íslandsstofu í samstarfi við svið Útflutnings- og fjárfestinga. Sviðið ber ábyrgð á vörumerkjum Íslandsstofu og tryggir samhæfingu skilaboða, þvert á áherslur.
Þróun og rekstur
Þróun og rekstur er stoðsvið sem sinnir þróun þjónustu Íslandsstofu við atvinnugreinar og fyrirtæki auk þess að vinna greiningar. Sviðið ber ábyrgð á þróun á þjónustu við íslensk fyrirtæki vegna starfsemi í þróunarríkjum og víðar á Heimstorgi Íslandsstofu.
Fjármál
Fjármálasvið er stoðsvið. Hlutverk þess er að tryggja að fjármál Íslandsstofu séu í samræmi við stefnu, markmið og áætlanir.