Siðareglur Íslandsstofu

Siðareglur þessar gilda um alla starfsemi, starfsmenn og stjórnendur og þá verktaka sem sinna tilteknum verkefnum á vegum Íslandsstofu. 

Siðareglur þessar byggja á stefnu Íslandsstofu og mannauðsstefnu. Reglurnar eru leiðbeinandi  við framkvæmd daglegra starfa með hagsmuni Íslandsstofu og viðskiptavina hennar að leiðarljósi.

Við erum framtakssöm, fagleg og drífandi og veitum íslensku samfélagi og atvinnulífi markvissa og framúrskarandi þjónustu í öllum okkar störfum:

 • Við virðum trúnað

 • Við erum bundin þagnarskyldu um allt það er við verðum áskynja um í starfi okkar og leynt skal fara samkvæmt eðli máls og hagsmunum Íslandsstofu og viðskiptavina.

 • Við nýtum ekki upplýsingar sem við fáum í störfum okkar í eigin þágu eða vandamanna okkar.

 • Við erum fagleg

 • Við vinnum faglega og erum heiðarleg í samskiptum við alla viðskiptavini Íslandsstofu.

 • Við kynnum okkur og virðum lög og reglur sem gilda um starfsemi Íslandsstofu sem og þær innri reglur sem Íslandsstofa hefur sett sér.

 • Við komum fram við haghafa og samstarfsmenn af virðingu og sýnum sanngirni og gætum jafnræðis í störfum okkar.

 • Við tökum ekki þátt í vinnu, verkefnum eða umræðu sem kastað geti rýrð á orðspor Íslandsstofu og dregið úr trausti til starfseminnar.

 • Við drögum úr hættu á hagsmunaárekstrum

 • Við upplýsum um þau atriði sem kunna að valda hagsmunaárekstrum í störfum okkar.

 • Við upplýsum yfirmenn okkar um atriði sem geta haft áhrif á sjálfstæði, hlutleysi eða skyldur okkar í starfi.

 • Í einstaka tilvikum kunna starfsmenn að vilja tengja vinnuferðir og frí með vinum eða vandamönnum. Til að forðast hugsanlegan hagsmunaárekstur ræðum við slík áform fyrst við yfirmann okkar og fáum samþykki hans.