Siðareglur Íslandsstofu


Siðareglur þessar gilda um alla starfsemi Íslandsstofu; stjórnarmenn, nefndarmenn í fagráðum, stýrihópum, markaðshópum og stjórnum verkefna á vegum Íslandsstofu, starfsmenn og stjórnendur og þá verktaka sem sinna tilteknum verkefnum á vegum Íslandsstofu. 

Siðareglur þessar byggja á stefnu Íslandsstofu og mannauðsstefnu. Reglurnar eru leiðbeinandi við framkvæmd daglegra starfa með hagsmuni Íslandsstofu og viðskiptavina hennar að leiðarljósi.​​​​​​​

Kjörorð mannauðsstefnu Íslandsstofu: Hjá okkur verða hugmyndir til og komast í framkvæmd. Ekkert er ómögulegt og nýjum hugmyndum og nýrri nálgun er tekið fagnandi. Vinnustaðurinn okkar er kraumandi suðupottur af sérþekkingu og jafnframt umvefjandi, skemmtilegur, krefjandi, alþjóðlegur og skapandi.

Siðareglur okkar marka þau siðferðilegu gildi sem við höfum í heiðri í starfsemi okkar.

  • Við virðum trúnað og erum bundin þagnarskyldu um allt það er við verðum áskynja um í starfi okkar og leynt skal fara samkvæmt eðli máls og hagsmunum Íslandsstofu, viðskiptavina og annarra haghafa

  • Við nýtum ekki upplýsingar sem við fáum í störfum okkar í eigin þágu, í þágu hagsmuna einstakra haghafa eða tengdra aðila.

  • Við erum fagleg og traust og tileinkum okkur góða viðskipta og stjórnarhætti.

  • Við kynnum okkur og störfum í samræmi við þau lög og reglur sem gilda um starfsemi Íslandsstofu sem og þær innri reglur sem Íslandsstofa hefur sett sér.

  • Við komum fram við haghafa og samstarfsmenn af virðingu og sýnum sanngirni og gætum jafnræðis í störfum okkar. Við förum ekki yfir mörk í samskiptum, beitum ekki einelti, ofbeldi eða kynbundnu áreiti eða kynferðislegri áreitni.

  • Við tökum ekki þátt í vinnu, verkefnum eða umræðu sem kastað geta rýrð á orðspor Íslandsstofu og dregið úr trausti til starfseminnar.

  • Við drögum úr hættu á hagsmunaárekstrum og gætum að því að persónulegt orðspor okkar hafi ekki neikvæð áhrif á orðspor Íslandsstofu.

  • Við upplýsum um þau atriði sem kunna að valda hagsmunaárekstrum í störfum okkar og atriði sem geta haft áhrif á sjálfstæði, hlutleysi eða skyldur okkar í starfi. Þegar þörf er á tökum við virkan þátt í úrvinnslu mála sem varða mögulega hagsmunaárekstra.

Ef upp kemur rökstuddur grunur um brot á siðareglum Íslandsstofu sem varðar stjórnarmann, nefndarmann eða framkvæmdastjóra fer um úrvinnslu þess í samræmi við reglur Íslandsstofu um hæfi og orðsporsáhættu.

Reglur þessar voru samþykktar á fundi stjórnar Íslandsstofu þann 18. maí 2022

Siðareglur Íslandsstofu