Jafnréttisstefna Íslandsstofu og áætlun
Í 5. gr. jafnréttislaga kemur fram að í jafnréttisáætlun þarf að kveða á um þau réttindi sem tilgreind eru í 6., 12.-14. gr. Þar er sérstaklega fjallað um almenn ákvæði um launajafnrétti, laus störf, starfsþjálfun, endurmenntun, símenntun, samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs, og hvernig atvinnurekendur og stjórnendur eiga að koma í veg fyrir kynbundið ofbeldi, kynbundin áreitni og kynferðislega áreitni.
Í 1. mgr. 1.gr. laga nr. 86/2018 er kveðið á um að óheimilt er að mismuna einstaklingum, beint eða óbeint, vegna kynþátta, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðana, fötlun, skertri starfsgetu, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkenni eða kyntjáningu.
Fjöldi stöðugilda á ársgrundvelli eru: 40.
Tengiliður: Inga Björg Hjaltadóttir.
Markmið
Með þessari jafnréttisstefnu vilja stjórnendur og starfsfólk taka höndum saman og vinna markvisst að jafnrétti og jafnri stöðu kynjanna og annarra hópa - með hagsmuni allra í huga.
Hæfni og starfsferill, ráðningar
Gerðar eru hæfni- og starfslýsingar þar sem hlutverk og ábyrgð starfsfólks eru skýr.
Vinnustaðurinn okkar er upplýstur og lögð er áhersla á símenntun og þjálfun.
Við berum öll ábyrgð á því að afla okkur nauðsynlegrar þekkingar og viðhalda hæfni okkar og þróun í starfi.
Fræðsla er skipul ögð með markvissum hætti hjá Íslandsstofu út frá greiningu á þörfum Íslandsstofu varðandi þekkingu og hæfni starfsfólks m.v. hlutverk stofunnar og verkefni.
Við nýtum nýja þekkingu í störfum okkar og tryggjum þannig að tilsettur árangur verði af fræðslu sem fjárfest er í.
Við tökum vel á móti nýju starfsfólki.
Við ráðningar er lögð áhersla á að fá til starfa hæfa, drífandi og árangursmiðaða einstaklinga.
Starf sem er laust til umsóknar stendur opið jafnt konum, körlum og fólki með hlutlausa skráningu kyns í þjóðskrá, sbr. Þó 2 mgr. 16.gr.
Við stöndum faglega að ráðningum og starfslokum.
Starfsumhverfi
Markmið okkar er að starfsumhverfi Íslandsstofu sé þægilegt og örvandi.
Skipulag vinnuumhverfisins tekur mið af þörfum starfseminnar og starfsfólks, lögum og reglum og þeim ramma sem húsnæði okkar og fjárhagur setur hverju sinni.
Leitast er eftir því að tryggja gott aðgengi og vinnuaðstöðu sem hentar öllum óháð kyni, eða einstaklingum með skerta líkamlega eða andlega getu.
Starfskjör, jafnrétti og fjölskylduábyrgð, einelti og áreitni
Laun og kjör hjá Íslandsstofu taka mið af inntaki starfa, álagi, hæfni og árangri starfsfólks.
Starfsfólk getur óskað eftir launaviðtali árlega. Launaviðtöl eru tekin af framkvæmdastjóra.
Íslandsstofa er jafnréttissinnaður vinnustaður.
Við gætum að því að störf hjá okkur flokkist ekki í karla og kvennastörf og vinnum markvisst að því að jafna kynjahlutföll í starfahópum.
Íslandsstofa gætir að stöðu fólks með hlutlausa skráningu kyns í þjóðskrá.
Við ráðningar er gætt að því að ráða ávallt hæfasta einstaklinginn til starfa og að mismuna ekki eftir kyni, kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðunum, fötlun, skertri starfsgetu, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkenna og kyntjáningar.
Við viljum að það höfði jafnt til allra kynja að starfa hjá Íslandsstofu.
Hjá Íslandsstofu er sveigjanlegur vinnutími og stuðlað að því með skipulagi vinnunnar að allt starfsfólk óháð kyni geti samhæft starf sitt, fjölskylduábyrgð og einkalíf með gagnkvæmri samvinnu og sveigjanleika.
Öll kyn njóta sömu tækifæra til starfsþróunar og fræðslu.
Konur, karlar og einstaklingar með hlutlausa skráningu kyns í þjóðskrá fá sömu laun og kjör fyrir sömu eða jafn verðmæt störf óháð kynþætti, aldri og annarra ómálefnalegra þátta sbr. Lög nr. 86/2018.
Við komum í veg fyrir kynbundinn launamun.
Einelti, ofbeldi eða kynferðisleg áreitni er ekki liðin hjá Íslandsstofu. Til er aðgerðaráætlun um viðbrögð ef upp kemur grunur um einelti, ofbeldi eða áreitni á vinnustaðnum.
Gerð er aðgerðaráætlun með mannauðsstefnu Íslandsstofu fyrir hvert starfsár og eru jafnréttisaðgerðir þar á meðal.
Einelti, kynferðisleg áreitni, kynbundin áreitni og ofbeldi er mælt árlega í viðhorfskönnun meðal starfsmanna.
Jafnréttisstefna þessi er byggð á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna nr. 150/2020 og lögum nr. 86/2018 um jafna meðferð á vinnumarkaði.
Stefna þessi er endurskoðuð árlega, síðast í apríl 2023.