13. mars 2024

Washington-búar tóku íslenskri menningu fagnandi

Ljósmynd

Þetta er þriðja heimsókn Taste of Iceland hátíðarinnar til Bandaríkjanna

Íslenska menningarhátíðin Taste of Iceland fór fram í Washington D.C. í síðustu viku. Markmið hátíðarinnar var að kynna heimafólk og fjölmiðla fyrir íslenskri menningu, framleiðslu og listum af ýmsum toga.

Taste of Iceland hefur fyrir löngu fest sig í sessi enda verið haldin víða um Bandaríkin undanfarin ár. Að þessu sinni var gestum hátíðarinnar meðal annars boðið að sækja námskeið í kokteilagerð og matreiðslu, jarðfræði- og eldfjallafræðslu, hljóðbað og íslenskt morgunverðarhlaðborð og samtal við íslenska glæpasagnahöfunda. Þá var settur upp pizzastaður þar sem allar pizzur voru úr íslenskri ull auk þess sem íslenskt tónlistarfólk kom fram á sérstökum Iceland Airwaves off-venue tónleikum. Í tilefni hátíðarinnar var einnig boðið upp á sérstakan íslenskan matseðil á veitingastaðnum Brasserie Beck, þar sem landsliðskokkurinn Bjarki Snær Þorsteinsson stóð vaktina. Dagskrá hátíðarinnar í heild má finna á vef Inspired by Iceland.

Skemmst er frá því að segja að fullt var út úr dyrum á öllum viðburðum hátíðarinnar og því ljóst að íbúar Washington tóku íslenskri tónlist, hönnun, mat og menningu fagnandi. Þá voru hátíðinni gerð góð skil í fjölmiðlum eins og þessi dæmi sína:

  • Jeff Naples, erindreki Reyka Vodka, í hádegisþætti Fox 5 DC:

  • Helga Ólafsdóttir, stjórnandi HönnunarMars, og Birta Rós Brynjólfsdóttir, hönnuður hjá Stúdíó Fléttu, í morgunþættinum Good Morning Washington:

  • Rithöfundarnir Ragnar Jónasson og Yrsa Sigurðardóttir í morgunþættinum Good Morning Washington:

  • Eldfjallafræðingurinn Helga Kristín Torfadóttir, og Kristín Manúelsdóttir, markaðsstjóri Icelandia, í sjónvarpsþættinum Great Day Washington

Skipuleggjendur hátíðarinnar eru að vonum ánægðir með árangurinn í Washington og halda ótrauðir áfram með undirbúning næstu hátíða sem haldnar verða í Denver í maí, New York í september og Seattle í október.

Það er Íslandsstofa, undir merkjum Inspired by Iceland, sem stendur fyrir Taste of Iceland í samstarfi við Blá lónið, Iceland Music, Icelandair, Icelandia, Icelandic Glacial, Icelandic Lamb, Icelandic Provisions, Icelandic Seafood, Isavia, Landsvirkjun, Reyka Vodka og Visit Reykjavík.

Hér fyrir neðan má sjá nokkrar myndir frá Taste of Iceland 2024 í Washington D.C.

Washington-búar tóku íslenskri menningu fagnandi

Sjá allar fréttir