4. júní 2021

Viðskiptafundur Íslands og Slóvakíu um heilbrigðistækni og lífvísindi

Samstarf Íslands og Slóvakíu á sviði heilbrigðistækni og lífvísinda var efst á baugi á rafrænum viðskiptafundi landanna.

Samstarf Íslands og Slóvakíu á sviði heilbrigðistækni og lífvísinda var efst á baugi á rafrænum viðskiptafundi landanna sem haldinn var 31. maí. Fjögur fyrirtæki frá hvoru landi kynntu þar starfsemi sína. 

Fundurinn er hluti af rafrænni viðskiptafundaröð sem utanríkisráðuneytið stendur fyrir í samvinnu við Íslandsstofu. Markmiðið er að búa til vettvang fyrir íslensk fyrirtæki til að kynna vörur sínar og þjónustu erlendis, og finna nýja samstarfsaðila, nú þegar ferðalög á milli landa liggja að mestu niðri. 

Martin Eyjólfsson, ráðuneytisstjóri í utanríkisráðuneytinu, flutti opnunarerindi á fundinum fyrir hönd Guðlaugs Þórs Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra. Ivan Korčok, utanríkis- og Evrópumálaráðherra Slóvakíu, ávarpaði jafnframt fundinn. Auk þess fjölluðu Thor Aspelund, prófessor við Háskóla Íslands, og Pavol Cekan, sem er doktor í efnafræði frá Háskóla Íslands og stofnandi nýsköpunarfyrirtækisins Multiplex, um nýsköpun á sviði lífvísinda í ríkjunum. Í kjölfarið héldu íslensku fyrirtækin ArcanaBio, Epiendo, Nordverse og Retina Risk og fjögur fyrirtæki frá Slóvakíu stuttar kynningar.
Sjá nánar í frétt á vef Stjórnarráðsins 

Horfa má á upptöku af fundinum hér að neðan.


Sjá allar fréttir