22. maí 2024

Viðburðarík Nýsköpunarvika að baki

Ljósmynd

Nýsköpunarvikan, Iceland Innovation Week (IIW) fór fram á dögunum og tók Íslandsstofa þar virkan þátt.

Íslandsstofa var í ár í hópi lykilbakhjarla Nýsköpunarvikunnar sem fram fór í Kolaportinu og víðar um miðborgina dagana 14.-16. maí sl. Auk þess að styðja við vikuna með ýmsum hætti stóð Íslandsstofa m.a. fyrir hliðarviðburðum meðan á vikunni stóð, með sérstakri áherslu á heilbrigðistækni, auk þess að standa fyrir dagskrá fyrir fjárfesta og blaðamenn. Þá var einnig tekið á móti fleiri gestum sem hingað komu að sækja hátíðina ásamt því að kynna sér íslenskt atvinnulíf.

Fjárfestadagskrá og erlendir miðlar

Fjárfestadagur var haldinn formlega í fyrsta skipti á Nýsköpunarvikunni. Íslandsstofa og Kría, sprota- og nýsköpunarsjóður, tóku á móti hópi erlendra fjárfesta á Vinnustofu Kjarval þar sem innlendir aðilar fóru yfir vísissjóða- og nýsköpunarumhverfið á Íslandi. G. Fertram Sigurjónsson sagði frá frábærum árangri Kerecis, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, ávarpaði salinn og sex íslensk fyrirtæki kynntu starfsemi sína.

Þá bauð Íslandsstofa, fyrir hönd Reykjavík Science City verkefnisins, hópi erlendra blaðamanna til landsins í tilefni af Nýsköpunarvikunni. Markmið heimsóknarinnar var að kynna íslenska nýsköpun og hugvit en að þessu sinni var sérstök sérstaka lögð á fyrirtæki og lausnir á sviði heilbrigðistækni. Blaðamennirnir, sem skrifa fyrir miðla á borð Sifted, TechCrunch, Tech.eu og Health Tech World, voru viðstaddir hina ýmsu viðburði og heimsóttu fyrirtæki auk þess að ræða við ráðherra nýsköpunar og ýmsa fulltrúa úr stuðningsumhverfinu. Hópurinn var ánægður með viðtökurnar og verður gaman að fylgjast með þeirri verðskulduðu umfjöllun sem íslensk fyrirtæki og Nýsköpunarvikan munu fá í framhaldinu.

Móttaka um tækifæri í Kanada og erlendir gestir

Á meðal hliðarviðburða á sjálfri Nýsköpunarvikunni stóð Íslandsstofa fyrir tengslaviðburði í Grósku, sem haldinn var í samstarfi við sendiráð Íslands í Kanada, kanadíska sendiráðið á Íslandi og heilbrigðisyfirvöld á Nýfundnalandi & Labrador. Íslandsstofa hefur undanfarin ár átt í samstarfi um markaðsverkefnið CMAP sem miðar að því að auðvelda norrænum heilbrigðistæknifyrirtækjumum inngöngu á markað í Kanada. Viðburðurinn var haldinn í tengslum við heimsókn 20 manna sendinefndar frá Nýfundnalandi og Labrador sem hingað kom, bæði til að kynna verkefnið og tækifæri í Kanada og eins til að fræðast um íslenskt heilbrigðiskerfi og tengjast fulltrúum þess og öðrum hagaðilum. Þess má geta að enn er hægt að skrá fyrirtæki í CMAP prógrammið.

Á meðal annarra gesta sem tekið var á móti meðan á Nýsköpunarvikunni stóð má nefna sendinefnd frá Eistlandi sem hingað var komin var að kynna sér nýsköpun og sjálfbærni í íslensku atvinnulífi,  einkum ferðaþjónustu. Auk kynningar frá Íslandsstofu fékk hópurinn kynningar frá nokkrum fyrirtækjum.

Þá er gaman að segja frá því að viðskiptafulltrúarnir 12 sem starfa við sendiráð Íslands erlendis voru staddir á landinu umrædda viku þar sem þau sóttu viðburði og funduðu með samstarfsaðilum, úr einka- og opinbera geiranum.

Viðburðarík Nýsköpunarvika að baki

Sjá allar fréttir