16. júní 2023

Tíu íslensk fyrirtæki með í forsetaheimsókn til Kanada

Ljósmynd

Íslensku fyrirtækin sem tóku þátt í heimsókninni voru Icelandair, Icelandic trademark holding, Kerecis, Eimskip, Prescriby, Kadeco, Landsvirkjun, Marel, Íslandsbanki og Planet Youth.

Dagana 29. maí - 1. júní fóru forseti Íslands Guðni Th. Jóhannesson og frú Elíza Reid í opinbera heimsókn til Kanada. Viðburðurinn markaði tímamót þar sem síðasta opinbera heimsóknin frá Íslandi var farin árið 2000, eða fyrir 23 árum. Með í för var sendinefnd með tíu íslensk fyrirtæki innanborðs á sviði menningar og viðskipta, ásamt fulltrúum Íslandsstofu.

Farið var til borganna Ottawa, Halifax, St. John's og Toronto, þaðan sem flogið var heim með Icelandair sem býður upp á beint flug.

Tveir viðburðir voru haldnir í Ottawa þar sem umfjöllunarefnið var viðhald íslenska tungumálsins og geðheilbrigði ungs fólks. Fyrri viðburðurinn fjallaði um mikilvægi þess að viðhalda fámennum tungumálum og tók þar Jóhanna Vigdís Guðmundsdóttir frá Almannarómi, miðstöð um máltækni þátt. Þá fór fram málstofa um mikilvægi velferðar ungmenna. Þar kynnti Planet Youth verkefni sem þau hafa verið að vinna víða um heim, meðal annars í Kanada, sem hverfist um forvarnir gegn vímuefnanotkun ungmenna.

Í Ottawa fundaði forseti Íslands einnig með landsstjóra Kanada, Mary Simon, og forsætisráðherra landsins, Justin Troudeau.

Í viðskiptalífinu voru áherslurnar aðallega á sjávartækni, græna orku og heilsutækni.

Íslensku fyrirtækin sem tóku þátt í heimsókninni voru Icelandair, Icelandic trademark holding, Kerecis, Eimskip, Prescriby, Kadeco, Landsvirkjun, Marel, Íslandsbanki og Planet Youth.

Í Halifax fóru fram fjölbreyttir viðburðir. Þar á meðal var viðskiptahádegisverður með helstu áhrifaaðilum í viðskiptalífi í Halifax, fundur í COVE (Center for Ocean, Ventures and Entrepreuneurship) um sjávartengda tækni þar sem Marel var með erindi, viðburður og umræður um heilsu ungmenna og fíknivanda og að lokum umræður með forseta Íslands þar sem fjallað var um innflytjendamál.

Því næst var haldið til borgarinnar St. John's þar sem Marine institute var sótt heim og rætt um tækni og nýsköpun í sjávarútveginum. Komu saman aðilar frá Nýfundnalandi og Labrador til að ræða áskoranir og tækifæri þessu tengdu. Að lokum flutti forseti Íslands erindi um þorskastríðið fyrir fullum sal.

Daginn eftir voru starfsstöðvar heilbrigðisþjónustufyrirtækisins Newfoundland Labrador Health services heimsóttar, en Íslandsstofa og sendiráð Íslands í Kanada hafa unnið með þeim að samstarfsverkefni fyrir íslensk heilsutæknifyrirtæki. Þar kynntu heilsutæknifyrirtækin Prescriby og Kerecis starfsemi sínar og lausnir.

Á fundi á Annual Energy NL conference and exhibition fjallaði Landsvirkjun um tækifæri tengd því að vinna með endurnýjanlega orku. Eimskip var einnig með sýningarbás á staðnum og kynntu þjónustu sína.  

Hér að neðan má sjá nokkrar myndir frá heimsókninni.

Tíu íslensk fyrirtæki með í opinberri heimsókn forseta Íslands til Kanada

Sjá allar fréttir