9. janúar 2024

Stutt við uppbyggingu alþjóðaflugs á landsbyggðinni

Ljósmynd

Arnheiður Jóhannsdóttir framkvæmdarstjóri Markaðsstofu Norðurlands, Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra, Pétur Óskarsson forstjóri Íslandsstofu og Dagmar Ýr Stefánsdóttir framkvæmdarstjóri Austurbrúar.

Menningar- og viðskiptaráðherra undirritaði í dag samning við Íslandsstofu um áframhaldandi stuðning við markaðssetningu á Akureyrarflugvelli og Egilsstaðaflugvelli. Verkefninu Nature Direct er ætlað að hvetja til samstarfs og samvinnu Íslandsstofu, Isavia, Markaðsstofu Norðurlands og Austurbrúar um kynningu á flugvöllunum á Akureyri og Egilsstöðum fyrir beint millilandaflug á svæðinu. Samningurinn er til tveggja ára og nemur árlegt framlag til hans 15 milljónum króna.

Greint er frá þessu á vef Stjórarráðsins þar sem segir að með samningum fái Isavia innanlandsflugvellir og Íslandsstofa það hlutverk að kynna flugvellina sem og Flugþróunarsjóð, en sjóðurinn hefur það að markmiði að styðja við uppbyggingu nýrra flugleiða til Íslands þannig að koma megi á reglulegu millilandaflugi um alþjóðaflugvellina Akureyri og Egilsstaði.

„Eitt af forgangsmálum mínum sem ferðamálaráðherra er að stuðla að aukinni dreifingu ferðamanna um landið utan háannatíma. Það bætir rekstrarskilyrði í greininni með auknum fyrirsjáanleika og betri nýtingu innviða á ársgrundvelli. Skilvirkasta leiðin til þess er að ýta undir beint millilandaflug til alþjóðaflugvallanna á landsbyggðinni. Flug EasyJet frá London til Akureyrar er stór áfangi og að baki honum liggur þrotlaus vinna. Það eru fjölmörg tækifæri fólgin í ferðaþjónustu á landsbyggðinni allan ársins hring sem mikil verðmæti eru fólgin í að nýta,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra.

„Það er hluti af útflutningsstefnu Íslands að stuðla að öflugri ferðaþjónustu um allt land, allt árið. Beint flug leikur þar stórt hlutverk og undanfarið hafa verið stigin mikilvæg skref í þeim efnum. Við hjá Íslandsstofu hlökkum til áframhaldandi góðs samstarfs við Markaðsstofu Norðurlands, Austurbrú og Isavia innanlandsflugvelli við að kynna þessa frábæru áfangastaði. Það eru spennandi tækifæri framundan,“ segir Pétur Óskarsson forstjóri Íslandsstofu.

Þá ákvað menningar- og viðskiptaráðherra jafnframt að veita Markaðsstofu Norðurlands og Austurbrú 20 m.kr framlag hvorri til þess að kynna áfangastaðina, innviði og þjónustu í boði, vöruframboð og undirbúa komu væntanlegra ferðamanna með beinu millilandaflugi til Akureyrar og Egilsstaðaflugvallar.

Lesa frétt í fullri lengd á vef Stjórnarráðs Íslands

Stutt við uppbyggingu alþjóðaflugs á landsbyggðinni

Sjá allar fréttir