12. september 2022
Stærsta kvikmyndaverkefni Íslandssögunnar
Fulltrúar Íslandsstofu ásamt ráðherra og sendinefnd og fulltrúum Warner.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra leiddi nýverið sendinefnd á vegum Íslandsstofu og Útflutningsskrifstofu íslenskrar tónlistar (ÚTÓN) með áherslu á kvikmyndir og tónlist. Markmið ferðarinnar var að kynna Ísland sem áfangastað sköpunar, kynna íslenska menningu og hvetja til erlendrar fjárfestingar í skapandi greinum á Íslandi.
Meðal umræðuefna á fundum ráðherra með fyrirtækjunum voru tækifæri og áskoranir í kvikmyndagerð ásamt þeim tækifærum sem felast í skapandi greinum á Íslandi. Nýleg hækkun úr 25% í 35% á endurgreiðslu framleiðslukostnaðar í kvikmyndagerð, sem samþykkt var á Alþingi í vor, var kynnt fulltrúum fyrirtækjanna og geta Íslands til að takast á við stór kvikmyndaverkefni rædd.
Eitt af dótturfyrirtækjum Universal, HBO max, tilkynnti í sumar um að þáttaröðin True Detective verði tekin upp á Íslandi. Um er að ræða stærsta kvikmyndaverkefni Íslandssögunnar en umfang þess er áætlað um 9 milljarðar króna en tökur munu standa yfir í 9 mánuði.
,,Ég finn fyrir miklum meðbyr hér í Los Angeles með þeim aðgerðum sem við höfum verið að hrinda í framkvæmd á undanförnum misserum til þess að efla skapandi greinar á Íslandi. Verkefnið True Detective er stærsta erlenda fjárfesting á sviði menningar í Íslandssögunni. Með skýrri sýn og margþáttuðum aðgerðum er okkur að takast að gera landið okkar að mjög álitlegum samstarfskosti í heimi kvikmyndanna [...]’’ sagði Lilja D. Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra.
Með í för voru Pétur Þ. Óskarsson, framkvæmdastjóri Íslandsstofu og Einar Hansen Tómasson sem leiðir verkefnið Film in Iceland. Íslandsstofa er framkvæmdaraðili að verkefninu sem hefur m.a. það markmið að kynna kynna Ísland sem vænlegan tökustað, 35% endurgreiðslu framleiðslukostnaðar, og innviði íslenska kvikmyndaumhverfisins.
Tekið úr frétt á vef Stjórnarráðs Íslands frá 11. september 2022