28. janúar 2021

Sjö íslensk fyrirtæki á útboðsþingi Sameinuðu þjóðanna

Útboðsþing Sameinuðu þjóðanna fór fram á rafrænu formi dagana 25. og 26. janúar þar sem sjö íslensk fyrirtæki tóku þátt.

Nýlokið er tveggja daga útboðsþingi Sameinuðu þjóðanna með þátttöku sjö íslenskra fyrirtækja. Þingið var nú haldið í sjötta skipti en vegna heimsfaraldurs var það á rafrænu formi að þessu sinni og skýrir það líklega metfjölda þátttakenda. Um 230 fyrirtæki og stofnanir voru skráð til leiks og þá hafa aldrei fleiri fulltrúar Sameinuðu þjóðanna tekið þátt í kynningum og umræðum um innkaupaferla og áætlaða þörf fyrir vörur og þjónustu. Danir báru hita og þunga af skipulagningu þingsins en Íslandsstofa og sendiráð Íslands í Kaupmannahöfn komu að undirbúningi í samstarfi við stofnanir og utanríkisþjónustur hinna Norðurlandanna

Umræða um norrænt samstarf og sjálfbærar lausnir var áberandi á þinginu. Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra tók þátt í umræðum utanríkisráðherra Norðurlandanna og lagði þar áherslu á að alþjóðlegt samstarf hefði aldrei verið brýnna en nú á tímum heimsfaraldursins. Einnig væri mikilvægt að leggja áherslu á áframhaldandi norrænt samstarf og þá sérstaklega á þeim sviðum sem Norðurlöndin standa framarlega, s.s. sjálfbærum og grænum lausnum. Pétur Þ. Óskarsson, framkvæmdastjóri Íslandsstofu, ræddi með kollegum sínum samstarf systurstofnana Íslandsstofu á ýmsum sviðum, þ.á.m. stuðning við sókn norrænna fyrirtækja á erlenda markaði. Þá  sagði hann frá hlutverki Grænvangs við að kortleggja þær grænu lausnir sem íslensk fyrirtæki hefðu fram að færa og mikilvægi Grænvangs í að koma þeim á framfæri m.a. við Sameinuðu þjóðirnar og aðrar alþjóðastofnanir. Hjá þjónustuborði atvinnulífsins fengju fyrirtækin síðan leiðbeiningar og upplýsingar um möguleika á stuðningi við verkefni í þróunarlöndum og víðar, þar sem Ísland á í samstarfi við.


Sjá allar fréttir