19. janúar 2024
Sjálfbærnisögur sagðar á degi Ábyrgrar ferðaþjónustu
Hér kynnir Lína Petra Þórarinsdóttir fagstjóri ferðaþjónustu hjá Íslandsstofu, sjáfbærnisögur fyrir áfangastaðinn Ísland sem miðla á erlendis.
Dagur Ábyrgrar ferðaþjónustu var haldinn miðvikudaginn 18. janúar fyrir fullu húsi í hátíðarsal Grósku. Viðburðurinn í ár var samstarfsverkefni Íslandsstofu og Ferðaklasans en áherslan var á sjálfbærnisögur áfangastaðarins Íslands og nærandi ferðaþjónustu. Þá var viðburðurinn einnig hluti af vel heppnaðri Ferðaþjónustuviku sem fram fór dagana 16. – 18 janúar í samstarfi við stoðkerfi ferðaþjónustunnar.
Forsetafrú Íslands, Eliza Reid hóf daginn á því að afhenda hvatningarverðlaun Ábyrgar ferðaþjónustu sem í ár fóru til Bláa lónsins. Flest þekkja Bláa Lónið enda rótgróið fyrirtæki og eitt af okkar verðmætustu vörumerkjum þegar kemur að landkynningu og íslenskri ferðaþjónustu. Færri þekkja þó eða tengja Bláa lónið við hringrásarhagkerfið og hvernig það hefur unnið með auðlindastrauma síðustu 30 árin. Sjá nánari umfjöllun um verðlaunin
Að lokinni verðskuldaðri viðurkenningu til Bláa lónsins tók Inga Hlín Pálsdóttir til máls en hún kynnti nýstofnaða Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins sem hún veitir jafnframt forstöðu. Markaðsstofan bætist í þétt net markaðsstofa landshlutanna og er nú markaðsstofa í hverjum landshluta. Markaðsstofa höfuðborgarinnar er byggð á grunni sjálfbærni og mun efla til muna samstarf og slagkraft ferðaþjónustuaðila innan höfuðborgarsvæðisins. Stefnumörkun og leiðarljós stofunnar hafa verið samþykkt ásamt helstu verkefnum ársins 2024 og verður spennandi að fylgjast með starfinu áfram.
Í kjölfarið kynnti Lína Petra Þórarinsdóttir, fagstjóri ferðaþjónustu innan Íslandsstofu þær átta sögur sem valdar hafa verið til að miðla sjáfbærnisögum fyrir áfangastaðinn Ísland. Hefur kortlagning þessara sagna verið í gangi síðustu misseri með opnum vinnustofum og samtali við greinina. Niðurstaða þessarar vinnu er afurð sem við getum unnið með í almannatengslum, á samfélagsmiðlum, á vef, í herferðum, á viðburðum og almennt í öllu því sem snýr að markaðssetningu á áfangastaðnum. Sögurnar eru allar aðgengilegar á Travel Trade hluta Visit Iceland vefsins undir heitinu Iceland's Sustainability Saga
En það er ekki nóg að kortleggja sögur og ákveða innihald þeirra, það þarf líka að miðla þeim og koma þeim á framfæri við væntanlega gesti okkar og kveikja þannig bæði áhuga sem og að auka þekkingu aðila á landinu okkar og menningu. Auður Ösp Ólafsdóttir sem hefur sérhæft sig í upplifun viðskiptavina færði okkur nær sannleikanum um það hvernig við glæðum sögurnar lífi og hvernig við nýtum okkur innihald þeirra sem fyrirtæki í ferðaþjónustu um allt land.
Til að segja sjálfbærnisögu Bláa lónsins til síðustu 30 ára fengum við gæðastjórann þeirra, Fannar Jónsson til að fara yfir farin veg og miðla með okkur hvernig tilurð og tilvst Bláa lónsins kom til. Í upphafi var um tilraunastarfsemi og mikla frumkvöðlavinnu að ræða sem síðan þróaðist yfir í að vera okkar vinsælasti áfangastaður fyrir erlenda ferðamenn sem jafnframt heldur áfram uppruna hlutverki sínu með að bjóða sinn einstaka lækningamátt til þeirra sem þurfa á að halda. Þær meðferðir hafa verið sjúklingum að kostnaðarlausu sem sýnir jafnframt þá samfélagslegu ábyrgð sem Bláa lónið ber í sínu nærumhverfi.
Ásta Kristín Sigurjónsdóttir, framkvæmdastjóri Ferðaklasans sló síðan botninn í viðburðinn með innsýn og sérstaka hvatningu í átt að nærandi ferðaþjónustu. Það verður leiðarstef Ferðaklasans á árinu 2024 að festa hugmyndafræði nærandi ferðaþjónustu betur í sessi og mun klasinn bjóða fyrirlestra, verkfærakistur og aukna þekkingu til handa þeim ferðaþjónustuaðilum sem vilja tileina sér að ná enn lengra á sjálfbærnivegferðinni. Til þess þarf hugrekki, rétt hugafar og vilja til að gera sífellt betur og meira en einungis þess sem krafist er af aðilum. Nærandi ferðaþjónusta þjónar fólkinu í landinu, verndar viðkvæma náttúru og sér til þess að áfangastaðurinn verði betri eftir að til ferðaþjónustu kemur heldur en ella. Til þess að svo megi verða þurfa ferðaþjónustufyrirtækin að hafa vörur og þjónustu í boði fyrir gesti sem gera þeim kleift að leggja meira af mörkum og verða þannig partur af þessu mikilvæga vistkerfi sem ferðaþjónustan er.
Fundurinn var í styrkri stjórn Hildar Bjargar Bæringsdóttur, viðskiptastjóra hjá Íslandsstofu og tengilið við sjálfbærni í ferðaþjónstu.
Hér að neðan má finna nokkrar myndir frá viðburðinum