5. apríl 2023

Samstarfssamningur um fjárfestingaverkefni við landshlutasamtökin

Ljósmynd

Frá undirritun samningsins 30. mars síðastliðinn. Sjá nöfn fulltrúanna neðst á síðu.

Íslandsstofa og landshlutasamtökin undirrituðu samning um samstarf við upplýsingamiðlun og þjónustu vegna fjárfestingaverkefna á sameiginlegum fundi landshlutasamtakanna 30. mars. Samningurinn markar tímamót því þótt samstarf aðila á þessu sviði hafi verið farsælt og farið vaxandi hefur það ekki verið formgert fyrr með þessum hætti.

„Landshlutasamtökin eru einn allra mikilvægasti samstarfsaðili Íslandsstofu svo ég fagna þessum áfanga mjög,“ sagði Pétur Óskarsson framkvæmdastjóri Íslandsstofu af þessu tilefni. Samstarfið hefur aukist ekki aðeins vegna fjárfestingaverkefna sem eru að kanna aðstæður og tækifæri víða um land heldur einnig vegna aðildar að mótun Útflutningsstefnu fyrir Ísland og nú síðast kortlagningar tækifæra til að efla loftslagsvænar fjárfestingar og styðja við þróun hringrásarlausna auk þess að bæta ferla og skilvirkni við framgang verkefna. Þar er Íslandsstofa formlegur samstarfaðili stjórnarráðsins og með þessum samstarfssamningi er tryggt að Íslandsstofa vinnur náið með landshlutasamtökunum.

Tækifæri og verkefni sem landshlutasamtökin styðja við hvert í sínum landshluta verða hluti af kynningarstarfi Íslandsstofu gagnvart erlendum fjárfestum og efni Íslandsstofu er landshlutasamtökunum til ráðstöfunar. Í samstarfi um eflingu loftslagvænna fjárfestinga með stjórnvöldum mun Íslandsstofa byggja á upplýsingum frá landshlutasamtökunum um tækifæri, vænleg verkefni og miðla ábendingum um tækifæri til úrbóta í umhverfi nýfjárfestinga. Landshlutasamtökin munu gegna mikilvægu hlutverki við þjónustu og upplýsingamiðlun vegna verkefna og leggja Íslandsstofu til gögn og upplýsingar til miðlunar gagnvart erlendum fjárfestum. Sú þróun hefur átt sér stað í vinnu fjárfestingastofa víða um heim að áherslan er ekki aðeins í auknum mæli á sjálfbærni heldur mótaðri virðistilboð og vel undirbúin og kynnt tækifæri á einstökum svæðum.

Samningurinn, sem gildir í upphafi út 2023 með ákvæði um árangursmat og endurskoðun fyrir árslok, var undirritaður af framkvæmastjórum allra landshlutasamtakanna, utan Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu en samstarfið við SSH er í frekari mótun á næstum mánuðum. Landshlutasamtökin eru alls átta; Austurbrú, Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum (SSS), Samtök sunnlenskra sveitarfélaga (SASS), Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH), Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi (SSV), Samtök sveitarfélaga Norðurlandi vestra (SSNV), Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra (SSNE) og Vestfjarðastofa.

Á mynd efst í frétt eru, frá vinstri: Páll S. Brynjarsson framkvæmdastjóri SSV, Guðveig Lind Eyglóardóttir stjórnarformaður SSV, Lára Halldóra Eiríksdóttir stjórnarformaður SSNE, Albertína F. Elíasdóttir framkvæmdastjóri SSNE, Páll Björgvin Guðmundsson framkvæmdastjóri SSH, Ásgerður Kristín Gylfadóttir stjórnarformaður SASS, Regína Ásvaldsdóttir stjórnarformaður SSH, Árni Alvar Arason forstöðumaður útflutnings og fjárfestinga hjá Íslandsstofu, Bjarni Guðmundsson framkvæmdastjóri SASS, Pétur Óskarsson framkvæmdastjóri Íslandsstofu, Guðmundur Haukur Jakobsson stjórnarformaður SSNV, Jóna Árný Þórðardóttir fráfarandi framkvæmdastjóri Austurbrúar, Berglind Kristinsdóttir framkvæmdastjóri SSS, Berglind Harpa Svavarsdóttir stjórnarformaður Austurbrúar, Jóhann Ösp Einarsdóttir stjórnarformaður Vestfjarðastofu, Sigríður Ó. Kristjánsdóttir framkvæmdastjóri Vestfjarðastofu, Friðjón Einarsson stjórnarformaður SSS, Katrín M. Guðjónsdóttir framkvæmdastjóri SSNV.

Íslandsstofa - Útflutningsaðstoð, landkynning, fjárfestingar

Sjá allar fréttir