10. september 2022

Saltfiskurinn sameinar unga meistarakokka

Ljósmynd

Vilhelm Neto ásamt tveimur vinningshöfum keppninnar

Matreiðslunemar úr suðri heimsóttu Ísland á dögunum á vegum Bacalao de Islandia, sem er kynningarverkefni íslensks þorsks í Suður Evrópu. Undanfarin ár hafa skólar á Spáni, Portúgal og Ítalíu keppt í eldamennsku á íslenskum saltfiski. Þar þykir íslenski saltfiskurinn herramannsmatur, og margar þekktustu sælkerauppskriftirnar byggja á honum.  

Keppnin ber heitið Concurso de Escuelas Culinarias Bacalao de Islandia eða CECBI. Uppleggið er svipað og keppnin í Masterchef sjónvarpsþáttunum sem margir kannast við. Þetta er annað árið sem hún fer fram og er hún óðum að festa sig í sessi meðal ungra matreiðslunema.  

rich text image

Það var sérstakt ánægjuefni að þetta árið voru meirihluti þátttakenda stúlkur og tvær efnilegar matreiðslukonur voru í hópi sigurvegara, þær Sónia de Sá frá Viana do Castelo í Portúgal og Alba González frá Málaga á Spáni, auk Diego de Leiva frá Sorrento á Ítalíu. 

Íslandsferðina hlutu þau í verðlaun og komu til landsins ásamt kennara sínum. Heimamenn fengu einnig að njóta þegar nemarnir komu saman og endursköpuðu vinningsréttina fyrir boðsgesti í Salt Eldhúsi. Hver vinningshafinn af öðrum kynnti saltfiskrétti sína og var Vilhelm Neto í hlutverki veislustjóra enda annálaður aðdáandi saltfiskmatargerðar.

rich text image

Auk smakkrétta frá nemendunum sá íslenska kokkalandsliðið, sem hefur um árabil verið samstarfsaðili Íslandsstofu, um móttökuveitingar og vínpörun. Á meðal gesta voru Eliza Reid forsetafrú og Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra ásamt fulltrúum frá saltfiskframleiðendum, SFS, Íslandsstofu o.fl.  

Mikilvægur þáttur í ferðinni var heimsókn í saltfiskvinnslu en sá draumur þeirra rættist á Reykjanesinu þar sem finna má suma af stærstu framleiðendum saltfisks á Íslandi. Heimsóttu þau saltfiskvinnsluna hjá Vísi og fóru um borð í skip hjá Þorbirninum. 
Þar fyrir utan fengu erlendu gestirnir að upplifa íslenska náttúru og mat í öllum sínum fjölbreytileika. Með hópnum í för voru blaðamenn frá spænska dagblaðinu ABC og Food & Travel í Portúgal og munu þessir miðlar gera Íslandsferðinni góð skil.  

rich text image

Þakklæti var ungu matreiðslunemunum og kennurum þeirra ofarlega í huga þegar fulltrúar Íslandsstofu kvöddu þessa nýju Íslandsvini. Saltfiskurinn var sameiningartáknið hér og fara þau heim með góðar minningar um eyjuna þar sem þetta úrvalshráefni verður til. Með þessu má einnig segja að CECBI hringnum sé lokað þetta árið, en næstu CECBI keppnir eru fyrirhugaðar í febrúar-apríl árið 2023 á Spáni, Ítalíu og í Portúgal. 

Saltfiskurinn sameinar unga meistarakokka

Sjá allar fréttir