26. maí 2021

Sækjum fram

Íslensk fyrirtæki sem hafa áhuga á að hasla sér völl á erlendum mörkuðum eru komin með aðgang að þjónustuaðila sem getur auðveldað þeim að koma fljótt undir sig fótunum í framandi umhverfi.

Fyrstu íslensku fyrirtækin eru byrjuð að skoða þá möguleika sem í boði eru í kjölfar þess að samstarf Íslandsstofu og Business Sweden var nýverið kynnt. Þjónustan sem er í boði er víðtæk; að finna samstarfsaðila utan landsteinanna, stofna dótturfélag, bjóða starfsaðstöðu á skrifstofu Business Sweden, aðstoð við skattamál og ráðningu starfsfólks og svo mætti lengi telja. Pétur Þ. Óskarsson, framkvæmdastjóri Íslandsstofu, fjallaði um málið í Markaðnum í dag.

Viðskiptafulltrúar utanríkisþjónustunnar hafa til þessa veitt íslenskum fyrirtækjum margháttaða þjónustu og greitt götu þeirra í útlöndum en þeir eru til staðar á tólf erlendum mörkuðum. Nú bætist verulega við þann hóp en alls eru 450 starfsmenn á vegum Business Sweden í 42 löndum um allan heim.

Með samkomulaginu er íslenskum fyrirtækjum gert kleift að nýta sér tiltekna þjónustu Business Sweden eins og um sænsk fyrirtæki væri að ræða.

Íslenska utanríkisþjónustan er kná en smá og mun aldrei geta boðið upp á það net landa sem nú fæst aðgangur að. Íslensk fyrirtæki sem hafa áhuga á að hasla sér völl á erlendum mörkuðum eru komin með aðgang að þjónustuaðila sem getur auðveldað þeim að koma fljótt undir sig fótunum í framandi umhverfi.

Nánari upplýsingar um samstarfið við Business Sweden veitir:

Erna Björnsdóttir hjá Íslandsstofu, erna@islandsstofa.is.

Greinina má lesa á vef Markaðarins:

Smelltu hér til að lesa

Sjá allar fréttir