17. apríl 2024

Rektor HÍ er heiðursgestgjafi Meet in Reykjavik

Ljósmynd

Mynd frá vinstri: Sigurjóna Sverrisdóttir, Hildur Björg Bæringsdóttir, Jón Atli Benediktsson og Þórdís Lóa Þórhallsdóttir.

Jón Atli Benediktsson rektor Háskóla Íslands var heiðraður á ársfundi Meet in Reykjavik í gær. Hann leiddi til sigurs umsókn Íslands um að fá ráðstefnuna „International Geoscience and Remote Sensing Symposium (IGARSS)“ til Reykjavíkur árið 2027. Gert er ráð fyrir að 2.500 erlendir vísindamenn og fagfólk á sviði fjarkönnunar frá öllum heimshornum sæki ráðstefnuna sem fram fer í Hörpu og Háskóla Íslands í júlí 2027.  Fjarkönnun felst í því að taka stafrænar myndir úr flugvélum, drónum og gervitunglum og vinna úr þeim margs konar upplýsingar um yfirborð jarðar og breytingar á því.   

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, forseti borgarstjórnar og stjórnarformaður Meet in Reykjavík afhenti Jóni Atla viðurkenninguna á ársfundi Meet in Reykjavík í gær, 16. apríl.

Þórdís sagði af því tilefni að Jón Atli hafi verið formaður undirbúningsnefndar sem fór fyrir umsókninni auk þess að vera í hópi fremstu vísindamanna heims á sviði fjarkönnunar. Þá eigi hann drjúgan þátt í framúrskarandi árangri Háskóla Íslands á sviði fjarkönnunar en Háskóli Íslands er einn af tíu fremstu háskólum heims á því sviði samkvæmt nýjasta lista Shanghai Rankings yfir bestu háskóla heims. Það væri því ekki ofsögum sagt að hann hafi gegnt lykil hlutverki í að fá ráðstefnuna til Reykjavíkur.  

Jón Atli þakkaði Meet in Reykjavík fyrir aðstoðina í umsóknar ferlinu og sagði að þeirra reynsla og framlag hefði gert það að verkum að yfirleitt hafi verið hægt að fara af stað í umsóknarferlið. 

Um IGARSS og GRSS 

GRSS vinnur að því að efla rannsóknir, hagnýtingu og menntun á sviði fjarkönnunar í þágu samfélaga, en fjarkönnun felst í því að taka stafrænar myndir úr flugvélum, drónum og gervitunglum og vinna úr þeim margs konar upplýsingar um yfirborð jarðar og breytingar á því.   

Meginþema ráðstefnunnar 2027 hverfist um aukinn skilning á og viðbrögð við umhverfisáskorunum á alþjóðavettvangi með aðferðum fjarkönnunar. Sérstök áhersla verður lögð á miklar áskoranir á norðurslóðum vegna loftslagsbreytinga.  

Um Meet in Reykjavík: 

Hlutverk Meet in Reykjavík - Iceland Convention Bureau er að styrkja og efla ímynd Íslands og Reykjavíkur sem eftirsóknarverðs áfangastaðar fyrir ráðstefnur, fundi, hvataferðir og alþjóðlega viðburði. Verkefnið er rekið af Íslandsstofu og unnið í samræmi við leiðarljós íslenskrar ferðaþjónustu, útflutningsstefnu Íslands og ferðamálastefnu Reykjavíkurborgar.  

Sjá einnig vef Meet in Reykjavik

Rektor HÍ er heiðursgestgjafi Meet in Reykjavik

Sjá allar fréttir