29. maí 2023

Próteinframleiðsla er ein af áskorunum framtíðarinnar

Ljósmynd

Markmið málstofunnar var að fá innsýn inn í það hvaða skref íslensk nýsköpunarfyrirtæki eru að stíga í átt til framtíðar og aukinnar sjálfbærni í matvælaframleiðslu. 

Í tilefni af nýsköpunarviku stóð Íslandsstofa í samstarfi við Samtök iðnaðarins fyrir málstofu þann 23. maí undir yfirskriftinni Matvæli morgundagsins. Mannkynið stendur frammi fyrir þeirri áskorun að þurfa að tvöfalda próteinframleiðslu fyrir árið 2050 til að fæða íbúa jarðarinnar. Fólksfjölgun, loftslagsbreytingar og takmarkaðar náttúruauðlindir setja okkur skorður og markmið málstofunnar var að fá innsýn inn í það hvaða skref íslensk nýsköpunarfyrirtæki eru að stíga í átt til framtíðar og aukinnar sjálfbærni í matvælaframleiðslu. 

Framsögu höfðu Björn Örvar, stofnandi og vísindastjóri ORF líftækni, Björn V. Aðalbjörnsson, meðstofnandi og rannsóknar- og þróunarstjóri Loki Foods, Sigurður Markússon, framkvæmdastjóri þróunar hjá Sæbýli og Margrét Geirsdóttir, verkefnastjóri hjá Matís.  

Fyrirtækin eiga það sammerkt að leita leiða til að nýta auðlindir til próteinframleiðslu en draga um leið úr umhverfisáhrifum. Þau njóta njóta góðs af einstökum aðstæðum á Íslandi; hreinu vatni, sjálfbærri orku og öðrum orkustraumum og eru að vinna í að skala upp framleiðslu sína. Þrátt fyrir að eftirspurn neytenda  í Evrópu og Ameríku eftir kjöti hafi dregist saman er hún enn vaxandi í Asíu og Afríku og því fyrirsjáanlegt að þeirri eftirspurn þurfi að mæta með nýjum framleiðsluaðferðum.  

rich text image


Fyrirtækin leita leiða til að nýta auðlindir til próteinframleiðslu en draga um leið úr umhverfisáhrifum.

ORF líftækni er í hópi fjölmargra fyrirtækja á heimsvísu sem framleiða vaxtarþætti úr stofnfrumum dýra sem nýttir eru til að rækta kjöt. Áætlað er að hægt sé að framleiða um 10 tonn af nautakjöti með bara einni stofnfrumu úr kú, og um 90% minna af landi fara undir ræktun og 90% minna vatn þarf, samanborið við hefðbundna kjötframleiðslu. Mikill vöxtur er í þessari grein og árið 2020 var ræktað kjöt í fyrsta skipti framreitt á veitingahúsi í Singapúr. Ræktað kjöt er enn sem komið er of dýrt og mikilvægt að ná að skala upp framleiðslu til að ná verði vaxtarþátta niður. 
Loki Foods nýtir mikla fiskneyslu og þekkingu á sjávarútvegi á Íslandi til þróunar og framleiðslu á plöntumiðuðum sjávarafurðum, þ.e. vörum sem að stofni til eru úr plöntum en líkja eftir hefðbundnum sjávarafurðum m.a. í bragði, áferð og næringarinnihaldi. Fyrsta varan er þorskur en lax, túnfiskur og fleiri tegundir munu fylgja. Plöntumiðaðar sjávarafurðir koma ekki í stað hefðbundinna sjávarafurða en geta létt á náttúrunni og í þær er t.d. hægt að bæta næringarefnum og laga þannig að þörfum einstakra hópa. Samkvæmt niðurstöðum Boston Consulting Group hafa fjárfestingar í framleiðslu plöntupróteina meiri áhrif til að hægja á loftslagsbreytingum en t.d. fjárfestingar í orkuskiptum í samgöngum. 
Fyrirtækið Sæbýli hefur frá árinu 2007 þróað aðferðir til að rækta Abalone (sæeyru), eina verðmætustu eldistegund heims.  Abalone er sæsnigill sem orðinn er sjaldgæfur í náttúrunni en ræktaður víða um heim, aðallega í sjókvíum. Sæbýli ræktar sæeyrun á landi með lóðréttri ræktun í stýrðu umhverfi og nýtir síaðan borholusjó og jarðhita á  Reykjanesi til ræktunarinnar. Einnig eru uppi áform um að rækta stórþörunga á landi til að fóðra sæeyrun. Söluverðmætið er fimmfalt á við verðmæti eldislax og árlegur vöxtur markaðar um 15%. Litskrúðug skel snigilsins er einnig verðmæt og einkum nýtt í skartgripi.  
Matís vinnur með fyrirtækjum og rannsóknarstofnunum í Evrópu að því að rannsaka s.k. nýprótein; prótein úr t.d. jurtum, sveppum, þörungum og skordýrum sem ætlað er að koma í stað hefðbundinna dýrapróteina. Þrjú verkefni á þessu sviði miða að því að öðlast betri þekkingu á virðiskeðjunni, allt frá framleiðslu til markaðssetningar, fylla upp í þekkingareyður og skoða eiginleika hráefna í tengslum við vinnslutækni og matvælaframleiðslu. Einnig að skoða hver viðhorf neytenda eru til matvöru sem inniheldur nýprótein. Niðurstöður sýna m.a. að jákvæðni er meiri meðal karla en kvenna og meiri í yngri aldurshópum en þeim eldri. Þá kemur skýrt fram að jákvæðni eykst með aukinni menntun. En við erum ekkert nema vaninn og því er vöruþróun og kynning og fræðsla um vörum sem innihalda nýptrótein lykill að árangri.  

Matvæli morgundagsins rædd á málstofu

Sjá allar fréttir