7. desember 2022

Öskurherferðin sú besta af þeim bestu

Ljósmynd

Markaðsherferðin Looks Like you Need to Let it Out, sem gerð var fyrir áfangastaðinn Ísland og margir þekkja sem Öskurherferðina, var valin sú besta í flokki ferðaþjónustu á Global Effie Best of the Best verðlaunaafhendingunni sem fram fór í gærkvöldi.

Herferðin hófst 15. júlí 2020 og bauð tilvonandi ferðamönnum til Íslands að tengja sig við landið og losa um Covid-tengda streitu með því að öska heima hjá sér, en streyma öskrinu í gegnum netið í hátalara í íslenskri náttúru. Herferðin vakti mikla athygli erlendra fjölmiðla, en alls birtust yfir 800 umfjallanir um herferðina í erlendum miðlum sem náðu til um 2,6 milljarða neytenda á helstu mörkuðum íslenskrar ferðaþjónustu. Þá heimsóttu um 2,5 milljón manns vef verkefnisins og tæplega 200.000 öskrum var streymt. Herferðin hefur unnið til fjölda virtra verðlauna í markaðssetningu líkt og The One Show og á Cannes Lion hátíðinni.

Í Global Effie keppninnni metur dómnefnd fagaðila í markaðssetningu þær herferðir sem unnið hafa til Effie verðlauna í sínu landi eða heimsálfu og velur þá bestu af þeim bestu. Effie verðlaunin eru ein eftirsóttustu fagverðlaun sem veitt eru fyrir markaðssetningu og einungis veitt herferðum sem sýnt hafa framúrskarandi árangur. Í fyrra hlaut herferðin þrenn gullverðlaun í fagverðlaunum Effie fyrir Norður Ameríku og öðlaðist þar með þátttökurétt í keppninni sem fram fór í gær. 



Sigríður Dögg Guðmundsdóttir, fagstjóri ferðaþjónustu hjá Íslandsstofu
: „Þetta er enn ein rós í hnappagatið fyrir þessa vel heppnuðu herferð, en mér finnst samt mesta gleðiefnið vera sá árangur sem við höfum náð við að skapa áhuga á Íslandi í kjölfar Covid faraldursins. Sú ákvörðun stjórnvalda að hætta ekki að markaðssetja áfangastaðinn þrátt fyrir ferðatakmarkanir hefur sannað ágæti sitt. Áhugi á Íslandi hefur aldrei mælst meiri og endurreisn ferðaþjónustu hér hefur verið hraðari en í okkar samkeppnislöndum sem hefur haft mjög jákvæð áhrif fyrir þjóðarbúið.“

Magnús Magnússon, Peel auglýsingastofa: „Við erum ótrúlega stolt af þessari herferð og þeim árangri sem hún hefur náð. Þessi verðlaun er ekki síst viðurkenning fyrir þá fagmennsku sem ríkir í íslenskri auglýsingagerð, en öll vinna við framleiðslu herferðarinnar fór fram hér á landi.“

Looks Like You Need Iceland var unnin í samstarfi við auglýsingastofuna Peel og SS+K sem er hluti af M&C Saatchi samsteypunni. SKOT Production sá um framleiðslu, en leikstjórn var í höndum Samma og Gunna.

Öskurherferðin sú besta af þeim bestu

Sjá allar fréttir