1. febrúar 2023

Nýsköpun og tækifæri í söguferðaþjónustu á Íslandi

Ljósmynd

Undanfarin ár hefur verið uppbygging í menningar- og sögutengdri ferðaþjónustu hér á landi.

Íslandsstofa, Samtök um söguferðaþjónustu (SSF) og Félag íslenskra safna og safnamanna (FÍSOS) stóðu fyrir málþingi um nýsköpun og tækifæri í söguferðaþjónustu á Íslandi þann 20. janúar í Grósku. Undanfarin ár hefur verið uppbygging í menningar- og sögutengdri ferðaþjónustu hér á landi. Menningararfurinn getur verið óáþreifanlegur eða áþreifanlegur og því byggir miðlun á honum til ferðamanna á nýsköpun og hugviti. 

Ingvi Már Pálsson, skrifstofustjóri menningar- og viðskiptaráðuneytis, opnaði málþingið með ávarpi og talaði um mikilvægi menningar- og sögutengdrar ferðaþjónustu, en menning og saga Íslands er aðdráttarafl fyrir erlenda ferðmenn. Vefmiðlar eru áhrifarík leið til að kynna menningartengda ferðaþjónustu á Íslandi fyrir erlendum ferðamönnum. Í erindi sínu fjallaði Ísak Kári Kárason, fagstjóri vefmála hjá Íslandsstofu, um það hvernig menningarferðaþjónusta á Íslandi er kynnt á vefmiðlum Íslandsstofu fyrir markhópum íslenskrar ferðaþjónustu.

Þá greindi Dagrún Ósk Jónsdóttir, þjóðfræðingur, frá leiðum til að byggja upp og þróa upplifanir innan menningar- og sögutengdrar ferðaþjónustu og mismunandi tæknilausnir sem nýta má til miðlunar. Magnús Orri Marínarson Schram, framkvæmdarstjóri Rauðukamba (Fjallaböðin), sagði frá mótun nýs áfangastaðar, Fjallaböðin í Þjórsárdal. Fjallaböðin eru byggð á sögu- og menningu Þjórsárdals, náttúru staðarins og heitu vatni. Um er að ræða gisti- og baðaðstöðu sem og gestastofu, stefnt er að opnun árið 2025.

Guðrún Nordal, forstöðumaður Árnastofnunar fjallaði einnig um nýjan áfangastað í sögutengdri ferðaþjónustunni, Hús íslenskunnar. Í húsinu verður sýning á handritunum og miðlun á íslenskri tungu. Þá sagði Skúli Björn Gunnarsson, forstöðumaður Gunnarsstofnunar, frá nýjum leiðum til miðlunar á menningararfi og talaði í því samhengi um annars vegar sýndarveruleika og hins vegar viðbættan veruleika. Birna Lárusdóttir, fornleifafræðingur, fjallaði um minjastaði og fornleifastaði sem ferðamenn geta ferðast um.  

Hér að neðan er hægt að horfa á upptöku frá fundinum.

Íslandsstofa - Útflutningsaðstoð, landkynning, fjárfestingar

Sjá allar fréttir