22. febrúar 2021

Mikil eftirspurn eftir íslenska hestinum

Útflutningur til allra helstu markaðssvæða jókst á liðnu ári. Mikil aukningin varð á útflutningi til Bandaríkjanna og útflutningur til Bretlands nærri tvöfaldaðist.

Árið 2020 voru 2.320 hross flutt út frá Íslandi en eftirspurn eftir íslenska hestinum erlendis hefur vaxið hratt. Árið 2019 voru flutt út 1.509 hross frá Íslandi og nemur því aukningin milli ára 53%. Samanlagt útflutningsverðmæti hrossa frá Íslandi árið 2020 var rúmlega einn og hálfur milljarður króna samkvæmt tölum Hagstofunnar, hálfum milljarði meiri en 2019. Fara þarf rúmlega tuttugu ár aftur í tímann, eða til ársins 1997 til að finna sambærilegar tölur en þá voru 2.565 hestar fluttir úr landi.

Útflutningur til allra helstu markaðssvæða jókst á liðnu ári. Mikil aukningin varð á útflutningi til Bandaríkjanna eða 176% og útflutningur til Bretlands nærri tvöfaldaðist. Þennan góða árangur má m.a. útskýra með markvissu markaðsstarfi Horses of Iceland undanfarin ár.

Flest hross fóru að vanda til Þýskalands (974), næstflest til Svíþjóðar (306) og til Danmerkur (271). Athygli vekur að Bandaríkin eru í fjórða sæti (141) en áhugi á íslenska hestinum þar fer ört vaxandi. Fleiri markaðir sækja í sig veðrið. Sviss er í fimmta sæti (135) og jókst útflutningur þangað um 42% milli ára. Fjöldi hesta sem seldur var til Belgíu (43) þrefaldaðist milli ára.

Vaxandi eftirspurn í Bretlandi er ánægjuleg en þangað fór 31 hestur. Útflytjendur hafa löngum litið Bretlandsmarkað hýru auga vegna nálægðar og náinna tengsla við sterka markaði annars staðar í Evrópu. Strembið hefur reynst að vekja áhuga breskra hestaunnenda á íslenska hestinum vegna ríkra reiðmennskuhefða á stórum hestum, en þetta gæti verið vísbending um breytt viðhorf. Einnig fóru íslenskir hestar til nýrra markaðssvæða árið 2020, en þrjú íslensk hross voru flutt til Lettlands í fyrsta skipti.

Í heildina voru þetta 314 stóðhestar, 1.015 hryssur og 991 geldingar. Þar af voru 156 fyrstu verðlauna hross. Þetta kemur fram í samantekt WorldFengs - upprunaættbók íslenska hestsins.


Gott orð fer af íslenska hestinum erlendis, en rannsóknir gefa til kynna að markaðsstarf Horses of Iceland hafi borið góðan árangur. Kostir íslenska hestsins hafa verið kynntir á samfélagsmiðlum, í blaðagreinum, í sjónvarpsþáttum, á sýningum og víðar. Kynningarefnið hefur náð til stórs hóps fólks út um allan heim.

„Það er margt sem hefur áhrif á þetta frábæra útflutningsár en það er klárt að fólk eyddi meiru í tómstundir sínar frekar en ferðalög í fyrra. Við erum svo heppin að hestamennsku er hægt að stunda að mestu leyti þrátt fyrir heimsfaraldurinn. Hins vegar teljum við einnig að gott vörumerki með samræmd skilaboð og myndefni sem Horses of Iceland hefur komið á framfæri hafi haft mjög jákvæð áhrif á ímynd íslenska hestsins. Við finnum greinilega fyrir auknum áhuga í mörgum löndum,“ segir Jelena Ohm, verkefnastjóri Horses of Iceland.

Þrátt fyrir erfitt efnahagsástand vegna Covid-19 eru hrossaútflytjendur bjartsýnir og búast við áframhaldandi góðum útflutningi árið 2021.

Um Horses of Iceland
Tilgangur markaðsverkefnisins Horses of Iceland er að byggja upp orðspor íslenska hestsins um heim allan til að leggja grunn að aukinni verðmætasköpun og útbreiðslu hestsins á heimsvísu.

Íslandsstofa sér um framkvæmd verkefnisins og starfar með verkefnastjórn sem skipuð er fulltrúum frá Félagi hrossabænda (FHB), Landssambandi hestamannafélaga (LH), Félagi tamningamanna (FT), auk útflutningsaðila og fulltrúa frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, mennta- og menningarmálaráðuneyti og Samtökum ferðaþjónustunnar.

Sjá nánar á vefnum: www.horsesoficeland.is 

Sjá allar fréttir