19. mars 2024

Metþátttaka Íslands á fjárfestingastefnu í Cannes

Ljósmynd

Íslandsstofa var í fyrsta sinn með Íslandssvæði á MIPIM 2024, einni stærstu fjárfestingastefnu heims þar sem saman koma fjárfestar, fasteignafélög, borgir, svæði og fjölbreytt flóra þjónustuaðila við fasteignageirann.

Eliza Reid forsetafrú og Unnur Orradóttir Ramette, sendiherra Íslands í Frakklandi, fóru fyrir íslensku sendinefndinni sem var sú stærsta á MIPIM til þessa, en sextán fyrirtæki víðsvegar að á landinu tóku þátt.
Hér má sjá lista yfir fyrirtækin

Risa verkefni á borð við uppbyggingu og þróun umhverfis Keflavíkurflugvöll voru kynnt af KADECO og Isavia. Tækifæri til umfangsmikillar uppbyggingar á Keldnalandinu, blönduð byggð við Köllunarklett, grænn iðngarður á Grundartanga og fjárfesting í upplifun við Stekkjarbakka voru einnig kynnt. Þá voru með í för fulltrúar ráðgjafa og þjónustuaðila, sveitarfélaga og landshlutasamtaka sem áttu fundi með áhugasömum fjárfestum og samstarfsaðilum. Fulltrúar Fransk-íslenska viðskiptaráðsins í Frakklandi voru íslensku verkefnunum til halds og trausts.

Eliza Reid var fulltrúi Íslands í pallborðsumræðum og norrænum viðburði í dagskrá MIPIM og bæði hún og Unnur sendiherra voru í viðtölum við fjölmiðla um tækifæri á Íslandi.

Fulltrúar landshlutasamtakanna nýttu ferðina vel og fóru í heimsókn í stærsta tæknigarð Evrópu, Sophia Antipolis, skammt frá Cannes. Þar starfa rúmlega 40.000 sérfræðingar frá öllum heimshornum saman í alþjóðlegum fyrirtækjum að þróun stafrænna lausna framtíðarinnar. Af hálfu forsvarsmanna garðsins kom fram mikill áhugi á samstarfi við íslenska aðila.

Viðskiptasendinefnd í júní

Fransk-íslenska viðskiptaráðið (FRÍS) er nú að fylgja heimsókninni eftir með skoðunarferð í byrjun júní. Þann 4. júní verður farið í heimsókn til yfirstjórnar Sophia Antipolis ásamt fjölda þeirra þekktu alþjóðlegu fyrirtækja sem þar starfa. Þann 5. júní er haldið til Mónakó til að kynnast þar efnahagslífi og stofnunum. Hægt er að skrá sig í ferðina á heimasíðu FRÍS.

Metþátttaka Íslands á fjárfestingastefnu í Cannes

Sjá allar fréttir