Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
13. október 2021

Matvæli framtíðarinnar

Matvæli framtíðarinnar
Íslensk hátæknifyrirtæki hafa þróað lausnir sem eru mikilvægar til að matvælaframleiðsla í heiminum geti orðið sjálfbær.

Útlit er fyrir að matarþörf heimsins muni tvöfaldast fyrir árið 2050. Því verður að leita nýrra leiða til að framleiða næg matvæli fyrir ört vaxandi fólksfjölda án þess að raska jafnvægi náttúrunnar. Hvernig á að fæða tíu milljarða manna? Það er stóra spurningin sem jarðarbúar verða að finna svar við á næstu árum.

Á stefnumóti stjórnenda og frumkvöðla frá Íslandi og Singapúr sem fór nýverið fram var bent á ýmsar leiðir til þess. Nýsköpun og líftækni leika þar lykilhlutverk. Matvæli framtíðarinnar bíða handan við hornið.

Íslensk hátæknifyrirtæki hafa þróað lausnir sem eru mikilvægar til að matvælaframleiðsla í heiminum geti orðið sjálfbær. Marel og vörur þess þarf ekki að kynna, en fyrirtækið er meðal annars með starfsemi í Singapúr. Controlant er komið á stóra sviðið. Ekki einungis með snjallar lausnir sem tryggja örugga afhendingu bóluefna út um allan heim heldur býður fyrirtækið líka upp á lausnir sem geta minnkað matarsóun stórkostlega sem er allt of mikil og dýrkeypt. Bent hefur verið á að um þriðjungi matvæla í hinum vestræna heimi sé hent eða sóað. Það er ótækt. Orf líftækni er svo framarlega þegar kemur að framsækinni nýsköpun í líftækni og Íslenski sjávarklasinn hefur leitt saman skapandi fólk og frumkvöðla til að auka virði sjávarafurða og fullnýta afurðir hafsins. Þar eru möguleikarnir endalausir.

Utanríkisráðuneytið og Íslandsstofa stóðu fyrir stefnumótinu en hlutverk Íslandsstofu er að greiða fólki og fyrirtækjum leið út í heim til að auka gjaldeyristekjur þjóðarinnar og efla þannig samfélagið. Þótt höf og álfur skilji að er ríkur vilji milli landanna til að vinna saman þegar kemur að matvælaframleiðslu framtíðarinnar. Tækifæri fyrir nýsköpunarfyrirtæki í löndunum tveimur eru fjölmörg og þau verður að nýta til að auka bæði velsæld og velmegun. Samstarf atvinnulífs, skapandi vísindamanna og stjórnvalda er lykilatriði. Um risavaxið verkefni er að ræða en með því að byggja brú til annarra landa, nýta hugmyndaauðgi fólks og nýja tækni verður hægt að finna leiðir til þess.

Þrátt fyrir að vera í sitt hvorri heimsálfunni og ólík að stærð, eiga löndin það sameiginlegt að vinna að sjálfbærum leiðum í matvælaframleiðslu framtíðarinnar á borð við próteinræktun. Ísland getur orðið leiðandi í heiminum á þessu sviði. Þar skiptir endurnýjanleg græn íslensk orka miklu máli.

Jarþrúður Ásmundsdóttir

Viltu vita meira? Hægt er að horfa á stefnumótið á vef Íslandsstofu. Þar er hægt að fá greinargóða mynd af nýsköpun í löndunum tveimur og því hvernig matvælaframleiðslu framtíðarinnar verður háttað. Það eru spennandi tímar fram undan og á næstu misserum mun það skýrast hver matvæli framtíðarinnar verða.

Jarþrúður Ásmundsdóttir, fagstjóri hugvits, nýsköpunar og tækni hjá Íslandsstofu.

Deila